Innlent

Grunur um olíu­leka úr skipinu sem tók niðri við Akur­ey

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Skipinu var snúið til hafnar.
Skipinu var snúið til hafnar. Landhelgisgæslan

Erlent flutningaskip tók niðri við Akurey á þriðja tímanum í dag. Olíubrák reyndist vera á svæðinu og var skipinu því snúið aftur til hafnar. Séraðgerðarsveit Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út til aðstoðar.

Skipið var á leið frá Reykjavík til Rotterdam í Hollandi þegar það tók niðri. Vegna gruns um olíuleka verður mengunarvarnargirðing sett umhverfis skipið í Sundahöfn. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sér um að draga girðinguna umhverfis skipið með aðstoð frá séraðgerðarsveit Landhelgisgæslunnar, þegar það skilar sér til hafnar.

„Það sást þessi þunna brák úr þyrlunni, bæði úr skoðun Óðins sem sigldi þarna um og svo þyrlunni sem flaug þarna yfir, þá sást þessi þunna brák þar sem skipið tók niðri. Þess vegna siglir það inn til hafnar og netið verður sett utan um það,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu.

Umhverfisstofnun hefur verið gert viðvart og rannsóknarnefnd samgönguslysa mun fara með rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×