Innlent

Akureyringar á leið heim eftir Evrópuferð í rútunni sem valt

Kolbeinn Tumi Daðason, Bjarki Sigurðsson og Hólmfríður Gísladóttir skrifa
Frá vettvangi slyssins á þjóðvegi eitt sunnan Blönduóss í morgun.
Frá vettvangi slyssins á þjóðvegi eitt sunnan Blönduóss í morgun. Vísir

Rúta sem valt skammt sunnan við Blönduós á sjötta tímanum í morgun var að ferja 23 Akureyringa til síns heima frá Keflavíkurflugvelli. Sjö voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík. Aðrir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Enginn lést í slysinu og ekki vitað til þess að nokkur sé í lífshættu.

Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA Norðurleiðar, segir í samtali við fréttastofu að um hafi verið að ræða hóp starfsmanna hjá Akureyrarbæ sem hafði verið í starfsmannaferð. Hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli í kringum miðnætti. 

Stjórnstöð Almannavarna var virkjuð í morgun og allir tiltækir viðbragðsaðilar kallaðir út vegna slyssins. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Blönduósflugvelli skömmu fyrir sjö og við Landspítala um klukkan átta, með þrjá slasaða. Samanlagt voru sjö fluttir til Reykjavíkur með þyrlu og sjúkraflugi. Aðrir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri.

Þyrla Gæslunnar lenti við Landspítalann klukkan átta í morgun.Vísir

Gunnar segir lögreglu verða að svara spurningunni um hvað hafi gerst. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra klukkan tíu í morgun segir að tildrög slyssins séu til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi vestra og rannsóknarnefnd samgönguslysa. 

Bent er á að móttaka fyrir aðstandendur fer fram í Lundi, húsnæði Rauða krossins á Akureyri.

Steinar Gunnarsson hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra segir 23 hafa verið um borð í rútunni. Hann segir tildrög slyssins í rannsókn og of snemma að segja til um á þessari stundu hvað olli slysinu. Hann segir engan hafa látist í slysinu og þá viti hann ekki til þess að nokkur sé í lífshættu. 

Að neðan má sjá myndefni frá því þegar Landhelgisgæslan lenti með farþega við Landspítalann á níunda tímanum í morgun.

„Aðgerðir á vettvangi hafa gengið vel og greiðlega. Þyrlan kom þarna og flutti þrjá suður í Fossvoginn. Svo voru aðrir fluttir með sjúkraflugi frá Blönduósi. Aðgerðir hafa gengið vel og það komu bjargir úr öllum áttum,“ segir Steinar. Hann bendir fólki á móttöku fyrir aðstandendur í Rauða kross-húsinu á Akureyri.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Þrír fluttir með þyrlunni til Reykja­víkur og fjórir með sjúkra­flugi

Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur eftir alvarlegt slys skammt frá Blönduósi. Nokkrir aðrir voru fluttir með sjúkrabifreiðum til Akureyrar en þar voru fjórir settir í sjúkraflug til Reykjavíkur og nokkrir lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×