Erlent

Gekkst undir fullt brjóst­nám og greindist svo í annað sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Apple+ mun á næstunni frumsýna þáttaröð um upphaflegu ofurfyrirsæturnar; Evangelistu, Naomi Campell, Cindy Crawford og Christy Turlington.
Apple+ mun á næstunni frumsýna þáttaröð um upphaflegu ofurfyrirsæturnar; Evangelistu, Naomi Campell, Cindy Crawford og Christy Turlington. epa/Matteo Bazzi

Ofurfyrirsætan Linda Evangelista hefur greint frá því að hafa tvívegis greinst með krabbamein og hafa gengist undir fullt brjóstnám. Hún segir horfurnar ágætar en ekki frábærar.

Evangelista, sem er 58 ára, uppljóstraði um baráttu sína í viðtali við Wall Street Journal en sagðist ekki hafa viljað gera það fyrr, þar sem hún hafi ekki viljað þurft að kljást við slúðurpressuna á meðan hún var að ljúka meðferð.

Hún hafi fyrst verið greind með brjóstakrabbamein í reglubundinni skimun árið 2018. Þá hafi hún strax kosið að láta fjarlægja bæði brjóstin, bæði vegna þess hvernig æxlið var og vegna annarra heilsuþátta. Hún hefði viljað klára málið.

„Ég ætlaði ekki að deyja úr brjóstakrabbameini,“ segir Evangelista.

Fjórum árum síðar, sumarið 2022, fannst hins vegar krabbamein í brjóstvöðva. Þá gekkst hún undir frekari meðferð, meðal annars lyfja- og geislameðferð. Hún segist hafa sagt læknunum að „grafa holu í brjóstkassann“.

„Ég vil ekki að þetta sé fallegt. Ég vil að þú grafir upp. Ég vil sjá holu í bringunni á mér þegar þú ert búinn. Skilur þú mig? Ég ætla ekki að deyja úr þessu,“ sagði fyrirsætan við lækninn.

Horfurnar séu ágætar en ekki frábærar.

„Ég veit að ég er með annan fótinn í gröfinni en nú er ég í fögnuðargír,“ segir hún.

Apple+ mun á næstunni frumsýna þáttaröð um upphaflegu ofurfyrirsæturnar; Evangelistu, Naomi Campell, Cindy Crawford og Christy Turlington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×