Innlent

Kerfi lá niðri og Play þurfti að skilja tuttugu far­þega eftir

Árni Sæberg skrifar
Tuttugu farþegar þurftu að sitja eftir á þegar flugvélinni var flogið til Kanada.
Tuttugu farþegar þurftu að sitja eftir á þegar flugvélinni var flogið til Kanada. Vísir/Vilhelm

Samskiptagátt kanadíska landamæraeftirlitsins, sem auðveldar vinnslu umsókna um ferðaleyfi til landsins, lá niðri í dag. Tuttugu farþegar Play sem ekki höfðu fengið slíkt leyfi þurftu að sitja eftir þegar flogið var af stað.

Flug Play sem var á áætlun klukkan 15:10 í dag fór af stað klukkan 16:28 eftir að vandamál kom upp í kerfi kanadíska landamæraeftirlitsins.

Þetta staðfestir Birgir Olgeirsson, samskiptafulltrúi flugfélagsins, í samtali við Vísi. Farþegi sem átti bókað sæti um borð í flugvélinni setti sig í samband við fréttastofu eftir að í ljós kom að hann fengi ekki að fara með flugvélinni.

Birgir segir að það hafi ekki aðeins verið kanadískir ríkisborgarar sem fengu að fara með, heldur einnig þeir sem höfðu fengið ferðaleyfið, sem heitir ETA, með góðum fyrirvara. Þó sé ekkert við farþegana tuttugu að sakast enda gangi umsóknarferlið yfirleitt smurt fyrir sig með aðstoð samskiptagáttarinnar.

Farþegunum hafi verið ekið á hótel og þeir bókaðir í næsta flug Play til Hamiltonflugvallar í Toronto, sem er á áætlun á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×