Innlent

Framkvæmdastjóri VG fer til Landverndar

Samúel Karl Ólason skrifar
Björg Eva Erlendsdóttir.
Björg Eva Erlendsdóttir.

Björg Eva Erlendsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Landverndar. Hún starfar nú sem framkvæmdastjóri Vinstri grænna en hefur störf hjá Landvernd í október.

Í tilkynningu frá Landvernd segir að stjórn samtakanna hafi samið við Björg Evu eftir að Auður Önnu- Magnúsdóttir sagði upp í vor.

„Stjórn Landverndar horfði til þess að Björg Eva hefur víðtæka reynslu af rekstri félagasamtaka, reynslu úr fjölmiðlum og úr alþjóðastarfi á norrænum vettvangi. Nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri Vinstri grænna. Stjórnin metur einnig mikils að í ráðningaferlinu sýndi Björg Eva eldmóð fyrir málefnum náttúru og umhverfisverndar, enda hefur hún tekið þátt í náttúruverndarbaráttu lengst af ævinnar,“ segir í tilkynningunni.

Sem framkvæmdastjóri Landverndar mun Björg Eva stýra daglegum rekstri samtakanna og fjármálum þeirra. Hún mun einnig sjá um fjáröflun og gerð fjárhagsáætlana og fjárhagsskýrslna. Framkvæmdastjórinn kemur einnig fram fyrir hönd Landverndar í opinberri umræðu, gagnvart þriðja aðila og dómstólum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×