Mikligarður var íslenskt smásölufyrirtæki í eigu KRON, SÍS og nokkurra kaupfélaga. Upprunalega var félagið sameignarfélag en var breytt í hlutafélag árið 1989.
Krakkakrókur og kaffihorn
„Mikligarður verður stærsta verslun landsins,“ sagði Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri Miklagarðs í samtali við Morgunblaðið á opnunardaginn, þann 17. nóvember 1983. Fram kom í greininni að vöruúrval yrði meira en annars staðar á Íslandi; í matvörunni einni voru yfir 7000 vörutegundir og -merki á boðstólum.

„Við bjóðum með öðrum orðum í einni og sömu versluninni til sölu bæði olíu á bílinn og matarolíu, og allt þar á milli, en slíkt hefur ekki áður verið reynt hér á landi, að bjóða svo ólíkar vörur til sölu á einum og sama stað, og vörutegundir eru samtals um 30 þúsund,“ sagði Jón jafnframt.
Í Miklagarði var bryddað yrði upp á ýmsum nýjungum í verslunarrekstri sem Íslendingar höfðu ekki séð áður, til að mynda sérstökum krakkakrók, þar sem yngstu börnin gátu horft á myndband á meðan foreldrarnir versluðu, og kaffiteríu þar sem hægt var að tylla sér niður eftir verslunarleiðangurinn. Þá var sérstök snyrtivörudeild staðsett inni í miðri verslun og nafn varanna kom fram á strimlinum sem átti að auðvelda ráðdeildarsömum viðskiptavinum heimilisbókhaldið.

Mikligarður bauð einnig upp á ýmsar tækninýjungar sem voru óþekktar á Íslandi í upphafi níunda áratugarins, eins og tölvustýrða afgreiðslukassa sem voru tengdir við móðurtölvu, sem gaf reglulegar upplýsingar um vörustreymi og veltuhraða. Þá var sjónvarpskerfi notað til eftirlits með öllu sem fór fram í versluninni. Ófáir muna líka eftir Miklagarðstíðindum, en þar mátti finna nýjustu fréttir af þeim tilboðum og uppákomum sem voru í gangi í hverju sinni.
Á næstu árum jók Mikligarður umsvif sín en á tímabili voru reknar fjórar stórverslanir undir merkjum Kaupstaðarmerkisins í Mjódd, JL húsinu við Hringbraut, Garðatorgi í Garðabæ og í Miðvangi í Hafnarfirði. Árið 1990 hætti KRON rekstri og allar verlanir þess færðar yfir á Miklagarð hf.
Undir lok níunda áratugarins áttu sér stað töluverðar sviptingar á íslenskum matvörumarkaði og fljótlega kom í ljós að rekstrarfyrirkomulag Miklagarðs gengi ekki upp en stærstu eigendur hans á þessum tíma voru KRON, Kaupfélag Hafnarfjarðar og SÍS. Óhófleg skuldsetning og óhagfellt raunvaxtastig höfðu einnig áhrif og árið 1993 skellti Mikligarður í lás.
Meðfylgjandi myndir eru í eigu Elísu G. Jónsdóttur, dóttur Jóns Sigurðarsonar sem starfaði í Miklagarði á sínum tíma.
„Að vinna i Miklagarði var engu líkt,“ segir Elísa í samtali við Vísi.
„Þetta var lítið og þétt samfélag þar sem ríkti mikil vinnugleði, og samstaða og stolt einkenndi starfsmannahópinn. Það sem var kannski sérstakt var langur starfsaldur og má meðal annars þakka það nútímalegum stjórnarháttum og hvetjandi starfsumhverfi þar sem allir voru með það að markmiði að gera sitt besta. Mikligarður var ákveðin uppeldisstöð fyrir okkur unga fólkið og þar mynduðust sterk tengsl – bæði ástarsambönd, og vinasambönd sem jafnvel munu halda út ævina.“



