Lögreglan tilkynnti á blaðamannafundi nú fyrir stuttu að karlmaður og kona hafi verið handtekin í tengslum við sprenginguna. Mikið viðbragð var við húsið í morgun og eru miklar skemmdir á því. Aðgerðum viðbragðsaðila á vettvangi lauk um klukkan 11:30. Nokkrar íbúðir eru gjöreyðilagðar.
Flytja þurfti sjö á sjúkrahús, þar af eitt barn, en að sögn lögreglu er enginn þeirra illa slasaður.
Íbúar í húsinu lýsa því í samtali við fréttastofu Aftonbladet að þeir hafi vaknað við mikinn reykjarmökk inni hjá sér og einn lýsir því að eldur hafi logað fyrir utan útidyrahurð hans. Hann hafi því þurft að bíða eftir að slökkvilið kæmist að honum í körfu.