Fótbolti

BBC birti mynd af röngum sköllóttum manni í umfjöllun um Rubiales

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það er vissulega svipur með Luis Rubiales og Pablo Zabaleta.
Það er vissulega svipur með Luis Rubiales og Pablo Zabaleta. vísir/getty

Breska ríkisútvarpinu varð á í messunni þegar það fjallaði um Luis Rubiales og hneykslismálið sem skekur spænska fótboltann.

Sem kunnugt er hefur FIFA sett Rubiales af sem forseta spænska knattspyrnusambandsins vegna framkomu hans eftir úrslitaleik HM þar sem Spánn sigraði England, 1-0. Rubiales greip í klofið á sér þegar lokaflautið gall og kyssti svo leikmenn spænska liðsins niðri á vellinum, meðal annars Jennifer Hermoso beint á munninn.

Spænska knattspyrnusambandið hefur nú beðið Rubiales um að segja af sér vegna hneyklisins. Í yfirlýsingu sambandsins segir: „Eftir atburði síðustu daga og hegðunar sem hefur skaðað ímynd spænskrar knattspyrnu þá biðjum við Luis Rubiales að segja samstundis af sér sem forseti RFEF.“

Þegar BBC fjallaði um þessar nýjustu vendingar í málinu birti það fyrst myndir af Rubiales að kyssa Hermoso á munninn. Síðan var skipt yfir í myndir af Pablo Zabaleta, fyrrverandi leikmanni Manchester City, frá því þegar dregið var í riðla á HM 2022.

Þótt Zabaleta og Rubiales séu vissulega líkir voru netverjar snöggir að koma á auga á mistök BBC. Breska ríkisútvarpið baðst svo afsökunar á þessari yfirsjón.


Tengdar fréttir

Rann­saka koss Ru­bi­a­les sem mögu­legt kyn­ferðis­brot

Saksóknarar á Spáni kanna nú hvort að Luis Rubiales, forseti knattspyrnusambands landsins, hafi framið kynferðisbrot þegar hann kyssti leikmann kvennalandsliðsins á munninn án samþykkis hennar eftir úrslitaleik heimsmeistaramótsins. Leikmaðurinn segir að sambandið beiti hana þrýstingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×