Handbolti

Íslendingalið Leipzig tapaði naumlega fyrir Refunum frá Berlín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viggó byrjaði leik kvöldsins af miklum krafti.
Viggó byrjaði leik kvöldsins af miklum krafti. Hendrik Schmidt/Getty Images

Füchse Berlin byrjar tímabilið í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta með naumum tveggja marka sigri á Íslendingaliði Leipzig. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Leipzig og þá spila Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson með liðinu.

Viggó byrjaði leik kvöldsins, og tímabilið, af krafti en hann skoraði fyrstu tvö mörk Leipzig í leiknum. Staðan var hnífjöfn framan af fyrri hálfleik en undir lokin skoruðu gestirnir þrjú mörk í röð og komust þá fjórum mörkum yfir, staðan 9-11. Heimamenn lögðu ekki árar í bát og munurinn var tvö mörk í hálfleik, 13-15.

Refirnir frá Berlín komu sterkari út í síðari hálfleikinn og komust mest fimm mörkum yfir. Heimamenn lögðu ekki árar í bát og gerðu hvað þeir gátu til að minnka muninn. 

Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn aðeins eitt mark en þrátt fyrir miklar sveiflur undir lok leiks þá stóðu gestirnir uppi sem sigurvegarar, lokatölur 29-31.

Viggó skoraði þrjú mörk í leiknum og gaf tvær stoðsendingar en Andri Már komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×