Skoðun

Vaxta­hækkun fyrir fjár­málae­litu

Hörður Guðbrandsson skrifar

Með nýjustu vaxtahækkun svipti seðlabankinn endanlega af sér gærunni, bæði er það orðið algjörlega ljóst að seðlabankastjóri er strengjabrúða fjármagnseigenda og á fullu að reka alla inn í verðtryggð óhagstæð lán, lán sem stuðla að því að eigið fé launafólks hverfur í húsnæði á mjög stuttum tíma. Á sama tíma og þetta er gert er verið að keyra uppbygginu á íbúðarhúsnæði í þrot á sama tíma og það vantar húsnæði um allt land.

Seðlabankinn er að stuðla að efnahagslegri- og húsnæðiskreppu á landinu og í mínum huga er það ljóst að ef ekki verður beygt af þessari stefnu fljótt þá munum við sem samfélag búa við óstöðuleika næstu árin. Eigið fé fólks í eigin húsnæði brennur á íslenska verðbólgubálinu. Hagtölur sýna að það er græðgi fyrirtækjaeiganda sem heldur hér uppi verðbólgu, álagning, arðsemiskröfur og arðgreiðslur hækka ár til árs, en Seðlabankastjóra finnst mikilvægast að hirta launafólk, fólkið sem annað hvort hefur tekið á sig mikla hækkun afborganna vegna hækkunar vaxta eða horfir upp á eigið fé sitt hverfa, Seðlabankastjóra finnst mikilvægast að segja við það fólk að haga sér.

Það styttist í komandi kjarasamninga og í mínum huga verður ekki hægt að semja á vitrænan hátt í því ástandi sem við búum til núna. Fara þarf í stórátak í húsnæðismálum, ekki mun þýða fyrir ráðamenn þjóðarinnar að bjóða okkur einu sinni enn sömu lóðirnar eða sömu loforð og ráðamenn hafa gert nú þegar, byrja þarf að byggja strax, við bíðum ekki lengur.

Fréttir að undanförnu hafa sýnt okkur aðbúnað verkafólks, fólk sem býr í ósamþykktu húsnæði og iðnaðarhúsnæði, húsnæði sem er hættulegt fyrir fólk, þetta er þjóðarskömm og skal laga strax. Nota skal skattkerfið til þess að hægja á neyslu þeirra sem hafa ofurlaun og drífa hér áfram neyslu.

Hér verður ekki samið nema á komist samfélagssáttmáli um að verkafólk lifi góðu lífi á Íslandi.

Höfundur er formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×