Fótbolti

Kolbeinn og félagar nálgast öruggt sæti eftir endurkomusigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn í liði Gautaborgar í dag.
Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn í liði Gautaborgar í dag. Vísir/Hulda Margrét

Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn fyrir IFK Gautaborg er liðið vann mikilvægan 2-1 útisigur gegn Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Staðan var enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks, en heimamenn í Degerfors tóku foyrstuna á 50. mínútu með marki frá Gustav Granath.

Emil Salomonsson jafnaði þó metin fyrir Gautaborg á 65. mínútu áður en Marcus Berg kom liðinu yfir um fimm mínútum fyrir leikslok. Berg var þá að bæta upp fyrir mistök sín, en hann hafði misnotað vítaspyrnu stuttu áður.

Eins og áður sagði lék Kolbeinn allan leikinn fyrir Gautaborg í dag, en Adam Ingi Benediktsson sat á varamannabekknum.

Eftir sigurinn er Gautaborg með 19 stig í 14. sæti eftir 20 leiki, einu stigi frá öruggu sæti þar sem Degerfors og Sirius sitja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×