Innlent

Ráðist á Birgittu og Enok með hníf, hamri og pipar­úða á Dal­vegi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgitta og Enok voru stödd á bílaplaninu við Vínbúðina á Dalvegi þegar ráðist var á þau.
Birgitta og Enok voru stödd á bílaplaninu við Vínbúðina á Dalvegi þegar ráðist var á þau.

Tveir menn réðust á Enok Vatnar Jóns­son þar sem hann var staddur á bíla­plani við Vín­búðina á Dal­vegi í Kópa­vogi um sjö­leytið í kvöld á­samt kærustunni sinni Birgittu Líf Björns­dóttur, markaðs­stjóra World Class.

DV greindi fyrst frá en Vísir greindi fyrr í kvöld frá því að lög­regla hefði verið kölluð á vett­vang bíla­plansins vegna slags­mála. Þá var einn sjúkra­bíll jafn­framt kallaður á vett­vang en það var við­skipta­vinur ÁTVR sem hringdi á lög­regluna. 

Í um­fjöllun DV segir að bar­efli hafi meðal annars farið á loft. Birgitta Líf hafi forðað sér til hliðar og fylgst skelfd með á­rásinni. Fyrr í vikunni var greint frá því að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.

Birgitta Líf vildi ekki tjá sig um málið við Vísi. Samkvæmt heimildum Vísis voru ger­endur með hníf, pipar­úða og hamar og þekktu Birgitta og Enok ekki deili á þeim. Vitni að á­rásinni stigu inn í svo að enginn særðist. Lög­reglan var fljót á vett­vang og hafði hendur í hári þeirra.

Þá vitnar DV í færslu Birgittu af Insta­gram. Þar þakkar hún fyrir kveðjur sem parinu hefur borist.

Kveðst hún þakk­lát fyrir að lög­reglan hafi verið fljót á staðinn og að ger­endur hafi verið færðir í fanga­klefa. Áður hefur komið fram í dag­bók lög­reglu að tveir hafi verið færðir í fanga­klefa vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×