Fleiri en tvö hundruð gróðureldar loga nú í Norðvesturhéruðunum og var neyðarástandi lýst yfir á þriðjudagskvöld, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þegar er búið að rýma bæi og þorp þar sem um 6.800 manns búa, um fimmtán prósent íbúa héraðsins, að sögn AP-fréttastofunnar. Íbúi í Hay River sagði CBC í Kanada að bíll hans hefði byrjað að bráðna undan hitanum þegar fjölskyldan ók í gegnum glóðir á leið sinni út úr bænum.
Íbúar Yellowknife, höfuðstaðar fylkisins þar sem um 20.000 manns búa, er nú gert að yfirgefa heimili sín fyrir hádegi á morgun að staðartíma. Þeir sem ekki hafa kost á að fara með bíl er boðið að skrá sig í skipulagðar flugferðir samkvæmt fylkissyfirvöldum.
Eldarnir voru um sautján kílómetra frá bæjarmörkunum í gær. Rýmingarskipunin sem var gefin í gærkvöldi gildir fyrir Yellowknife og tvö frumbyggjasamfélög í grenndinni. Shane Thompson, ráðherra í fylkisstjórninni, segir bæinn ekki í bráðri hættu eins og er og íbúar hafi enn rúman tíma til þess að koma sér þaðan. Rigni ekki gætu eldarnir þó náð að Yellowknife um helgina.
Kanadíski herinn skipuleggur loftbrúna sem er sögð sú umfangsmesta í sögu Norðvesturhéraðanna. Flestir þeirra brottfluttu hafa verið færðir suður til nágrannafylkisins Alberta en óljóst er hvenær þeir geta snúið til síns heima.
Metfjöldi gróðurelda logar nú í Kanada, alls 1.067 talsins í gær. Meira en 21.000 ferkílómetrar lands hafa orðið eldunum að bráð.