Sport

Fór beint inn í bíl og sofnaði eftir 260 kílómetra hlaup

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mari er hreint út sagt ótrúleg hlaupakona.
Mari er hreint út sagt ótrúleg hlaupakona.

Eftir 261 kílómetra utanvegahlaup örmagnaðist Mari Jaersk á 40. hringnum. Hún hafnaði í öðru sæti á móti í Eistlandi og er furðuhress miðað við aðstæður.

Í bakgarðshlaupinu er tæplega sjö kílómetra hringur farinn og hlaupararnir verða að klára hvern hring á innan við 60 mínútum.

„Mér líður ágætlega. Er smá þreytt og aðallega í löppunum,“ segir Mari í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Mari segist hafa verið mjög ánægð með hlaupabrautina sem var á Eistlandi en næturnar voru erfiðar.

„Það voru frekar margar rætur og steinar á brautinni og maður var svolítið mikið að fljúga á hausinn, sérstaklega á annarri nóttinni. Það var erfiðast og líka að halda sér vakandi.“

Þessi magnaði hlaupari er mislengi að jafna sig eftir svona átök.

„Stundum hef ég verið að hlaupa 200 kílómetra og verið enga stunda að jafna mig en stundum tekur þetta alveg fimm daga og jafnvel lengri tíma.“

Eftir þessa 39 hringi var orkan búin.

„Ég var í raun ekkert mikið að færast áfram eftir þessa hringi,“ segir Mari en þegar hún kláraði hlaupið þá fór hún beint inn í bíl hjá bróður sínum og sofnaði strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×