Innlent

Þyrlan sótti slasaða vélsleðamenn við Langjökul

Kjartan Kjartansson skrifar
TF-Gná gerð tilbúin til flugtaks í dag. Hún verður staðsett á Akureyri um helgina.
TF-Gná gerð tilbúin til flugtaks í dag. Hún verður staðsett á Akureyri um helgina. Landhelgisgæslan

Tvær bandarískar konur sem slösuðust í alvarlegu vélsleðaslysi við Langjökul í dag voru fluttar með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Fjöldi björgunarsveitarfólks af öllu Suðurlandi vestan Þjórsár var kallað út vegna slyssins en dregið var úr viðbúnaði vegna þess hversu hratt þyrlan komst á staðinn.

Slysið átti sér stað við Skálpanes rétt við Langjökul. Útkall vegna slyssins barst um klukkan eitt samkvæmt upplýsingum Landsbjargar. Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar en svo vel vildi til að hún var á æfingaflugi nærri Langjökli þegar kallið barst.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að slysið sé talið alvarlegt. Hann hafði ekki frekari upplýsingar um meiðsl kvennanna aðrar en að önnur þeirra væri slasaðri en hin. Konurnar hafi verið komnir undir læknishendur á Landspítalanum í Fossvogi innan við klukkustund eftir að útkallið barst. Þyrlan lenti þar klukkan rúmlega tvö í dag.

Dregið var úr umfangi útkalls björgunarsveita eftir að ljóst varð að þyrlan næði að bregðast snöggt við. Einhver mannskapur þeirra var enn að aðstoða lögreglumenn að komast á staðinn til rannsóknar nú á þriðja tímanum, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar sinnti einnig útkalli vegna bráðra veikinda í Hornvík á Vestfjöðum fyrr í dag. Þyrlusveitin annast útköll um helgina bæði frá Akureyri og Reykjavík. Lögreglan á Norðurlandi óskaði eftir viðveru hennar þar því gert er ráð fyrir fjölmenni í landshlutanum, meðal annars vegna bæjarhátíðarinnar Fiskidagsins mikla á Dalvík. Þannig styttist viðbragðstími þyrlusveitanna.

Í tilkynningu frá Gæslunni segir að þyrlurnar hafi verið gerðar út frá Akureyri og Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina og það hafi gefist vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×