Innlent

Bíða enn eftir niður­stöðum krufningar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögreglan segir rannsókn málsins byggja að miklu leyti á niðurstöðum úr krufningu.
Lögreglan segir rannsókn málsins byggja að miklu leyti á niðurstöðum úr krufningu. Vísir/Vilhelm

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu bíður enn eftir endan­legri niður­stöðu krufningar vegna and­láts karl­manns sem lést í kjöl­far höfuð­höggs á skemmti­staðnum Lúx að­fara­nótt þess 24. júní síðast­liðinn.

Maðurinn sem lést hét Karolis Zelenkauskas og var 25 ára gamall litáískur ríkis­borgari. Hann hafði verið bú­settur hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Hann lést eftir einungis eitt höfuð­högg.

Að sögn Ei­ríks Valbergs, lögreglufulltrúa í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, bíður lög­regla enn eftir endan­legri niður­stöðu krufningar en biðin hefur nú varað í rúman mánuð. Hann segir tímann ekki ó­venju­legan og þá sér­stak­lega ekki í flóknum málum líkt og þessum.

Hann segir að skýrslu­tökum vitna sé lokið. Tölu­verður fjöldi var á staðnum þegar á­rásin átti sér stað en Ei­ríkur segist ekki hafa tölu þeirra sem lög­regla ræddi við vegna málsins á hreinu.

„Við höfum sæmi­lega mynd af því sem gerðist þetta kvöld. Niður­stöður rann­sóknarinnar byggja að miklu leyti á niður­stöðu krufningarinnar og þess vegna þurfum við að bíða eftir því, áður en við getum klárað hana að fullu.“

Hinum grunaða í málinu, sem er Ís­­lendingur á þrí­­tugs­aldri, var sleppt úr haldi rúmri viku eftir á­rásina. Hann hefur hins vegar enn réttar­­stöðu sak­­bornings. Ei­ríkur segir hann hafa verið sam­vinnu­þýðan með lög­reglu vegna rann­sókn málsins.


Tengdar fréttir

Nafn mannsins sem lést á Lúx

Maðurinn sem lést eftir líkamsárás á skemmtistaðnum Lúx á dögunum hét Karolis Zelenkauskas og var 25 ára gamall litáískur ríkisborgari, sem búsettur hafði verið hér á landi um nokkurra mánaða skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×