Bayern hafa lagt fram nokkur tilboð í Kane á síðustu vikum sem öllum hefur verið hafnað. Tottenham eru sagðir vilja í það minnsta 100 milljónir punda fyrir Kane, sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við liðið.
Nýjasta tilboð Bayern er sagt hljóða uppá um 82 milljónir en stjórnendur liðsins eru reiðubúnir að bæta í og reyna að komast að samkomulagi við Tottenham. Þá hefur franska stórliðið PSG einnig reynt að blanda sér í baráttuna.
Bayern hafa ekki lagt fram nýtt tilboð en bæði lið eru sögð bjartsýn á að ná samningum. Ef að kaupunum verður mun Kane verða dýrasti leikmaður í sögu Bayern og einnig sá launahæsti. Honum standi til boða fimm ára samningur sem myndi renna út rétt áður en Kane heldur upp á 35 ára afmælið sitt, en Kane fagnaði þrítugasta afmælisdegi sínum 28. júlí.