Erlent

Fundu tvö þúsund ára gamalt skips­flak

Máni Snær Þorláksson skrifar
Fjöldinn allur af kerjum er um borð í skipsflakinu.
Fjöldinn allur af kerjum er um borð í skipsflakinu. Carabinieri

Rómverskt skipsflak fannst á um 160 metra dýpi í um áttatíu kílómetra fjarlægð frá ítölsku höfuðborginni Róm. Um er að ræða skip sem talið er að hafi sokkið fyrir meira en tvö þúsund árum síðan.

Skipið er talið vera yfir tuttugu metrar á lengd og frá fyrstu eða annarri öld fyrir Krist. Hundruðir rómverksra kera voru um borð í skipinu þegar það sökk en samkvæmt ítölskum yfirvöldum eru flest þeirra ennþá í heilu lagi.

Fjarstýrður róboti var notaður til að finna skipið og taka upp myndband af því. Samkvæmt Reuters er ekki ljóst hvort það verði reynt að koma skipsflakinu eða farmi þess upp af hafsbotni.

„Þessi einstaka uppgötvun er mikilvægt dæmi um rómverkt skip sem lenti í sjávarháska á leið sinni að landi,“ segir í yfirlýsingu um fundinn frá yfirvöldum á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×