Innlent

Skar eins og hálfs metra gat á ærsla­belg

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ærslabelgurinn hefur nú verið lagfærður.
Ærslabelgurinn hefur nú verið lagfærður.

Skemmdar­verk voru unnin á ærsla­belg í frí­stunda­garðinum við Gufu­nes­bæ fyrr í þessum mánuði. Eins og hálfs metra gat var skorið á belginn með dúka­hníf. Verk­efna­stjóri segist vonast til þess að ærsla­belgurinn fái að vera í friði í fram­tíðinni. Þetta sé ekki fyrsta til­fellið þar sem skemmdar­verk séu unnin á svæðinu. Þau séu gjarnan árs­tíða­bundin.

„Við höfum að­eins verið að fást við þessar vespur, að það sé verið að spóla göt. Það gerist ekki nema belgurinn liggi niðri. Þannig að þá fórum við að taka upp á því fyrir um einu eða tveimur árum að hafa hann bara upp­blásinn,“ segir Nils Óskar Nils­son.

„Þar til fyrir tveimur vikum, þá var skorið á hann þetta eins og hálfs metra gat með dúka­hníf. Það var vesen að gera við þetta, en við vorum loksins að ná að opna hann í dag og vonum nú að þetta fái að vera í friði hér eftir.“

Ekki hefur náðst í lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu vegna málsins. Vísir hefur ný­lega flutt fréttir af skemmdar­verkum í hverfinu. Síðast í júní en þá var kveikt í trampo­líni á skóla­lóð Rima­skóla. Sagði lög­reglan við til­efnið að slík mál kæmu því miður reglu­lega upp.

Árs­tíða­bundin skemmdar­verk

„Þessi skemmdar­verk hafa verið árs­tíða­bundin og komið upp þegar skólinn er að klárast og vinnu­skólinn ekki byrjaður. Það heyrir samt til undan­tekninga að það sé eitt­hvað slæmt í gangi. En það kemur alveg fyrir því miður,“ segir Nils.

Hann segist vonast til þess að ærsla­belgurinn fái nú að vera í friði. Skemmdar­verk hafi því miður komið reglu­lega upp.

„Þetta er eitt­hvað sem við höfum alltaf þurft að fást við því miður. Það er afar leiðin­legt að þetta hafi verið tekið skrefinu lengra í þetta skiptið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×