Erlent

Hagl­él eyði­lagði bíla­leigu­bíla Ís­lendinga á Ítalíu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stefanía Sif Stefánsdóttir er stödd ásamt fjölskyldu og vinum á Ítalíu
Stefanía Sif Stefánsdóttir er stödd ásamt fjölskyldu og vinum á Ítalíu

Hópur Íslendinga lenti í haglélsstormi á Norður-Ítalíu í gær. Höglin voru á stærð við golfbolta og varð mikið tjón á bílaleigubílum hópsins. Tugir fólks hafa særst og að minnsta kosti tveir látist í stormum á Norður-Ítalíu undanfarið.

Hitabylgja hefur herjað á suðurhluta Ítalíu í sumar. Á Norður-Ítalíu hefur hins vegar verið aftakaveður undanfarna daga. Rúmlega hundrað manns slösuðust í haglélsstormi á svæðinu í síðustu viku.

Myndir af tjóni sem varð á bíl Íslendinga við Garda-vatn, austan við Mílanó-borg, eftir að haglél féll á bílinn.Hildur Björk Gunnarsdóttir

Hvirfilbylur herjaði á Mílanóborg í gær og féll fjöldi trjáa með þeim afleiðingum að ein kona lést. Þá lést sextán ára stúlka þegar tré féll á tjald hennar í Brescia-héraði í nótt. Flugvél sem var á leið til New York frá Mílanó neyddist til að lenda í Róm eftir að nef hennar varð fyrir miklum skemmdum í hagléli.

Stefanía Sif Stefánsdóttir er stödd ásamt fjölskyldu og vinum í Pozzolengo fyrir neðan Garda-vatn í Langbarðalandi á Norður-Ítalíu. Hópurinn hefur fundið rækilega fyrir þrumuveðri og haglélsstormum í ferðinni eins og sjá má í klippunni hér fyrir neðan.

Bílaleigubílar ónýtir eftir haglélið

Í nótt féllu haglél á stærð við tennisbolta til jarðar og ollu miklum skemmdum á húsi og bílum hópsins. Stefanía segir hópinn hafa heyrt sjúkrabílahljóð langt fram á nótt og rafmagnið hafi dottið ítrekað út.

„Við erum að reyna að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að koma tveimur úr hópnum upp á flugvöll,“ sagði Stefanía þegar Vísir hafði samband við hana í morgun.

„Við erum með þrjá bílaleigubíla og þeir eru allir tjónaðir og allir út í glerbrotum,“ segir hún um skemmdirnar.

Jörðin var þakin stórum höglum eftir storminn í nótt. Stefanía þakkar fyrir að ekki fór verr.Aðsent

Eruð þið búin að hafa samband við bílaleigurnar?

„Það er rosalega erfitt, það var enginn sem svaraði í 24/7-Road Assistance-símann í nótt,“ segir Stefanía. „Við erum búin að fá email frá annarri bílaleigunni, við leigðum frá tveimur bílaleigum. Þeir báðu okkur um að senda myndir en svöruðu því ekki hvort við ættum að keyra.“

Í myndbandinu fyrir ofan má sjá hvernig rúða á farþegasæti eins bílsins hefur sprungið og afturrúður hinna tveggja hafa splundrast. Þar fyrir utan eru bílarnir allir í dældum og eru sprungur á framrúðunum.

Brotnar rúður og beyglur á bílunum

„Þetta byrjaði um tíu, þrumurnar og non-stop eldingar yfir allan himininn. Við fórum út og skoðuðum þetta og svo byrjaði að hellirigna og það kom svakalegt rok.“

För eftir haglél á húsinu sem Stefanía og íslenski hópurinn gistir í.Aðsent

„Við vorum komin heim og krakkarnir segja Vá sjáiði eldingarnar! þannig við förum út og stöndum úti í garði og erum að taka myndir af eldingunum. Svo kemur svo rosalega mikið rok og rigning þannig við förum inn. En tveir úr hópnum, kallarnir, standa úti þegar haglélið byrjar og fá bolta í hausinn.“

„Síðan stækkaði haglélið bara, stækkaði og stækkaði. Eftir að haglélið hætti þá fórum við út og skoðuðum boltana og þetta var sirka frá golfboltum upp í tennisbolta,“ segir hún.

„Ég veit ekki hvort við getum keyrt þá svona, þeir eru svo skemmdir. Þeir eru allir í litlum beyglum og með brotnar rúður, mígandi blautir og allir í glerbrotum.“

„Við erum ekki viss hvort við treystum okkur til að keyra einn þeirra til baka út af framrúðunni af því það er svo mikill hraði á hraðbrautunum hérna.“

„Við erum eiginlega búin að kveðja trygginguna sem var tekin út af kortunum. Við höfum miklar áhyggjur að þeir muni rukka okkur meira,“ segir Stefanía um bílaleigurnar.

Þá segir Stefanía að fjöldi bíla heimamanna í nágrenninu hafi eyðilagst í storminum. Fólk sem ferðist til Norður-Ítalíu eigi að reyna að leggja í bílakjöllurum ef það getur. 

Bílar í nágrenninu sem eyðilögðust í storminum.Aðsent

Líma plastpoka fyrir rúðurnar og vona það besta

„Tveir úr hópnum eiga flug heim í dag og restin af hópnum flug á morgun. Það er algjör heppni að þetta hafi skeð núna en ekki á degi þrjú,“ segir hún.

Húsið sem hópurinn gisti í er líka illa farið og segir Stefanía að húsið sé „eins og það hafi verið skotið á það.“

Fjölskyldan á góðri stundu í Feneyjum.

Hver eru næstu skref hjá ykkur?

„Við ætlum að klippa í sundur búðarpoka og líma það yfir rúðurnar. Reyna að koma þessum tveimur upp á flugvöll og svo veit ég ekki hvernig við hin eigum að komast upp á flugvöll. Mögulega þurfum við að skilja þennan eina bíl eftir,“ segir hún.

„Við erum með tveggja og fjögurra ára börn sem við viljum helst ekki setja inn í bíl með miklum glerbrotum,“ segir Stefanía.

Myndir sem Hildur Björk tók við Garda-vatn af skemmdum á húsum og höglum í nærmynd.Hildur Björk Gunnarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×