Innlent

Eftir­lýstur maður hljóp 400 metra

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Upphaf spretthlaupsins var við lögreglustöðina á Hlemmi.
Upphaf spretthlaupsins var við lögreglustöðina á Hlemmi. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi í Hlíðunum í Reykjavík í dag, það er hverfi 105. Var hann fluttur á lögreglustöðina við Hlemm en við eftirgrennslan kom í ljós að hann var eftirlýstur og átti að hefja afplánun.

Þegar honum var greint frá þessu brást hann illa við og tók á rás. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar komst hann um það bil 400 metra áður en fótfráir lögreglumenn náðu að góma hann og handtaka. En vegalengdin samsvarar einum hring á frjálsíþróttavelli.

Fleira var fréttnæmt í Hlíðunum í dag. Meðal annars að lögreglunni barst tilkynning um tvær manneskjur í annarlegu ástandi í hverfinu. Reyndist fólkið vera að njóta lífsins í sólbaði og voru afskipti af þeim því ekki verkefni fyrir lögreglu.

Úr Vesturbænum barst tilkynningu um aðfinnsluvert háttalag einstaklings. Var hann farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að.

Þá var framið innbrot í Múlunum. Er það til rannsóknar hjá lögreglunni.

Gleraugnabox fullt að peningum

Lögreglumenn á lögreglustöð númer 3 (Kópavogi og Breiðholti) fundu gleraugnabox á götunni við hefðbundið umferðareftirlit. Í boxinu reyndust vera talsverðir fjármunir. Verður það í vörslu lögreglunnar þar til eigandinn finnst.

Þá var nokkuð um umferðarmál, meðal annars árekstur tveggja bifreiða í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki.

Á lögreglustöð 4 (Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær) barst tilkynning um brot á fánalögum. Það er tilkynnt var um þrjár rútur með íslenska þjóðfánann að framan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×