Innlent

Fóru inn á lokaðar gos­stöðvarnar og þurftu hjálp björgunar­sveita

Máni Snær Þorláksson og Árni Sæberg skrifa
Tveir ferðamenn sem voru á gossvæðinu í nótt þurftu aðstoð frá björgunarsveitum.
Tveir ferðamenn sem voru á gossvæðinu í nótt þurftu aðstoð frá björgunarsveitum. Vísir/Vilhelm

Gosstöðvarnar eru ennþá lokaðar en þær hafa verið það síðan síðastliðinn fimmtudagsmorgun.  Staðan verður endurmetin eftir hádegi í dag þegar viðbragðsaðilar hafa lokið fundi sínum. Leita þurfti að tveimur ferðamönnum í nótt.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum að ástæðan fyrir lokuninni sé sú að reykur frá gróðureldum berst yfir gönguleið að gosstöðvunum. „Við þessar aðstæður getur lögreglustjóri ekki tryggt öryggi þeirra sem inn á svæðið fara,“ segir í tilkynningunni.

Verið sé að vinna í því að slökkva í gróðureldum norðaustan við Keili. Þyrla Landhelgisgæslunnar hjálpar til við slökkvistarfið eins og hún hefur gert stíðustu daga. Vonast sé til að hægt sé að slökkva í þessum eldum fljótlega og opna Meradalaleið í kjölfarið.

Björgunarsveitir þurftu að leita að tveimur ferðamönnum í nótt, karli og konu, þrátt fyrir að lokað sé inn á svæðið. Konan sem týndist fannast austan við Keili á þriðja tímanum í nótt. Karlmaðurinn sem týndist fannst á Höskuldarvallavegi á fjórða tímanum í morgun.

„Það var maður á Höskuldarvallavegi í nótt sem gekk fram á björgunarsveit og tilkynnti henni að hann hefði ásamt vini sínum verið þarna á ferðinni en þeir hafi orðið viðskila um miðnætti og hann hafi ekkert séð til hans,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við fréttastofu. 

Maðurinn hafi fundist með hjálp dróna. „Hann allavega var á göngu og dróninn gaf honum merki um að það væri verið að svipast um eftir honum og hann gaf drónanum merkið um að hann væri tiltölulega kátur við að sjá hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×