Innlent

„Jörðin opnast beint fyrir framan okkur“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sprungan var líklega um tuttugu sentímetra breið þar sem mest var að sögn Jóns Atla.
Sprungan var líklega um tuttugu sentímetra breið þar sem mest var að sögn Jóns Atla. Jón Atli Magnússon

Hjón úr Hafnar­firði urðu vitni að því hvar jörðin opnaðist fyrir framan þau þar sem þau voru stödd við ná­lægt skjálf­ta­upp­tökum við Keili í gær­kvöldi þegar að stærsti skjálfti hrinunnar til þessa reið yfir.

„Þetta var tölu­vert meira en maður eigin­lega í­myndaði sér að maður gæti fundið,“ segir Jón Atli Magnús­son í sam­tali við Vísi. Hann og eigin­kona hans Ilmur Dögg Níels­dóttir voru á breyttum jeppa og voru á akstri austan við Keili þegar skjálftinn, sem var 5,2 að stærð, reið yfir. Ríkis­út­varpið ræddi fyrst við hjónin.

„Við vorum rúm­lega kíló­metra frá upp­tökunum að keyra þegar þetta ríður yfir, bíllinn hentist upp í loft og jörðin opnast beint fyrir framan okkur. Við sjáum sprunguna opnast nokkra metra frá bílnum og gríðar­legt ryk úti um allt,“ segir Jón Atli.

Hann segist telja að sprungan hafi verið rúm­lega tuttugu sentí­metrar að breidd þar sem mest var. Þau hjón urðu vitni að gríðar­legu grjót­hruni í Keilu og í Grænu­dyngju og sáu hvar einn grjót­hnullungur hrundi úr dyngjunni, yfir veginn og út í nær­liggjandi mosa.

Það söng í fjöllunum og stórir grjóthnullungar ferðuðust víða.Jón Atli Magnússon

„Það söng í öllum fjöllum og grjót­hrunið var tölu­vert. Það er klárt að það er til­efni til þess að vera við grjót­hruni þarna,“ segir Jón Atli sem bætir því við að þetta hafi verið ó­trú­leg upp­lifun, en þrátt fyrir það hafi þau hjón ekki orðið smeyk.

„Þetta reið hraðar og harðar yfir á skemmri tíma af því að við vorum svo ná­lægt upp­tökunum. Við héldum bara ró okkar á meðan þessu stóð.“

Um enga smávegis sprungu var að ræða.Jón Atli Magnússon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×