Innlent

Al­manna­varnir funda með vísinda­mönnum klukkan 9

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Enn skelfur jörð við Fagradalsfjall.
Enn skelfur jörð við Fagradalsfjall. Vísir/Egill

Yfir 1.600 jarðskjálftar hafa mælst við Fagradalsfjall frá því að hrina hófst í gær. Átta skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð og frá klukkan 7.30 fjórir yfir fjórum, sá stærsti 4,6 stig.

Vísindamenn Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands munu funda með Almannavörnum um stöðu mála klukkan 9.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir vel fylgst með gangi mála. Spurð um títt nefndan gosóróa segir hún að í raun hafi enginn órói sést í aðdraganda gosa í Fagradalsfjalli; það sem menn séu nú að vakta sé ekki síst hvort skjálftarnir færist nær yfirborðinu.

Það hafi þó ekki gerst frá því að hrinan hófst í gær en talið er að virknina megi rekja til kvikuinnskots á um 5 kílómetra dýpi.

„Þetta er mikil virkni klárlega og við tökum þessu alvarlega,“ segir Elísabet.

Skjálftarnir hafa fundist vel á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni næstu daga og er fólk varað við að fara á svæðið, meðal annars vegna mögulegs grjóthruns.

Að sögn Elísabetar er mögulegt að flogið verði yfir svæðið síðar í dag. Það muni þó meðal annars ráðast af því hvernig framþróunin verður.

Fréttin var uppfærð klukkan 8:39.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×