Erlent

Dæmdur fyrir að stinga fjór­tán ára stúlku til bana

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn réðst á stúlkurnar þar sem þær voru á leið í skólabílinn að morgni 5. desember.
Maðurinn réðst á stúlkurnar þar sem þær voru á leið í skólabílinn að morgni 5. desember. Getty

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt 27 ára karlmann í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa stungið fjórtán og þrettán ára stúlkur í þýska bænum Illerkirchberg á síðasta ári. Önnur stúlkan lést í árásinni sem skók þýskt samfélag.

DW segir frá því að dómstóllinn í Ulm í Baden-Württemberg hafi kveðið upp dóminn í morgun, en maðurinn var ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps.

Maðurinn réðst á stúlkurnar þar sem þær voru á leið í skólabílinn að morgni 5. desember. Maðurinn stakk þær með hníf og tókst þeirri yngri að flýja af vettvangi en sú eldri lést á sjúkrahúsi af völdum sára sinna.

Við aðalmeðferð sögðu saksóknarar í málinu að árásarmaðurinn, sem er eríreskur hælisleitandi, hafi borið hníf þar sem hann hafi haft í hyggju að neyða starfsmenn yfirvalda að útvega honum vegabréf. Hann hafi verið mjög reiður þýskum yfirvöldum þar sem hann hefði ekkert vegabréf til að ferðast aftur til Erítreu og eignast konu.

Þá sögðu saksóknarar að maðurinn hafi tekið hnífinn úr bakpokanum sínum og sett í vasa sinn þegar hann yfirgaf húsnæði sitt sem honum hafði verið úthlutað af yfirvöldum. Hann hafi svo ráðist á stúlkurnar þar sem hann taldi þær mögulega hafa séð hnífinn.

Maðurinn var handtekinn í húsnæði sínu skömmu eftir árásina. Hann var þá með hnífinn í fórum sínum.


Tengdar fréttir

Morðinginn bjó á móti á­rásar­staðnum

Maðurinn sem myrti fjórtán ára stúlku og særði aðra þrettán ára í bænum Illerkirchberg í Þýskalandi í gær er hælisleitandi frá Erítreu. Morðið framdi hann beint fyrir utan heimilið sem hann bjó á á meðan verið var að afgreiða hælisumsókn hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×