Fótbolti

Úkraínumenn slógu út Frakka

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úkraínumenn eru komnir í undanúrslit.
Úkraínumenn eru komnir í undanúrslit. Vísir/Getty

Úkraína er komið í undanúrslit Evrópumóts U21-árs landsliða í knattspyrnu eftir sigur á sterku liði Frakka í kvöld. Úkraína mætir Spáni í undanúrslitum.

Leikurinn í kvöld var fínasta skemmtun. Rayan Cherki kom Frökkum yfir á 19. mínútu eftir sendingu Bradley Barcola en Georgiy Sudakov jafnaði úr vítaspyrnu á 32. mínútu. Tólf mínútum síðar skoraði Sudakov á ný eftir sendingu Mykhailo Mudryk og staðan í hálfleik 2-1 fyrir Úkraínu.

Frakkar settu meiri kraft í sóknina eftir því sem leið á síðari hálfleikinn. Varamaðurinn Sepe Wahi var viss um að hann hefði jafnað metin á 81. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti sem Anatolii Trubin í marki Úkraínu varði. Wahi var hins vegar rangstæður og VAR dæmdi markið af.

Skömmu síðar settu Úkraínumenn síðan punktinn yfir i-ið. Artem Bondarenko fékk þá boltann í teignum, fór skemmtilega framhjá varnarmanni Frakka og vippaði yfir Lucas Chevalier í marki Frakka.

Lokatölur 3-1 og Úkraína slæst þar með í hóp Ísraela, Englands og Spáni sem áður höfðu tryggt sér sæti í undanúrslitum. Úkraína mætir Spánverjum á miðvikudag og England spilar við Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×