Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn þegar honum var komið í land. Hann segir að maðurinn hafi verið á áttræðisaldri og vitað sé hver hann var.
Hann segir að tildrög slyssins séu til rannsóknar. Þá segir hann að viðbragð hafi verið skjótt og björgunarskip fljótt á vettvang. Lík mannsins sé komið á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og öllum aðgerðum lokið.
Í tilkynningu frá lögeglunni segir að maðurinn hafi verið búsettur í Vestmannaeyjum og hann hafi verið með hópi manna við smölun í klettinum þegar óhappið varð. Félagar úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja hafi haldið þegar á vettvang og náðu manninum úr sjónum en hann reyndist vera látinn.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að björgunarskipið Þór hafi verið kallað út klukkan 13:40 vegna slyssins.
Ystiklettur er austasti klettur norðurklettanna í Vestmannaeyjum, en hann stendur norður af Víkinni þar sem innsiglingin í höfnina er.
Fréttin hefur verið uppfærð.