Fótbolti

Loftus-Che­ek einnig farinn frá Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólst upp hjá Chelsea en færir sig nú um set.
Ólst upp hjá Chelsea en færir sig nú um set. EPA-EFE/Isabel Infantes

Enska knattspyrnufélagið Chelsea heldur áfram að taka til í herbúðum sínum. Ruben Loftus-Cheek er genginn í raðir AC Milan á Ítalíu. Enski miðjumaðurinn kostar Mílanó-liðið um 15 milljónir punda [2,6 milljarða íslenskra króna].

Það var svo sannarlega tekið til hendinni hjá Chelsea eftir að tímabilinu lauk. Síðasta tímabil var algjört afhroð og þar sem félagið eyddi gríðarlegum fjárhæðum í janúar þurfti að taka til í bókhaldinu fyrir 30. júní.

Á undanförnum dögum og vikum hefur Chelsea selt hvern leikmanninn á fætur öðrum. Má þar nefna Kai Havertz til Arsenal, Mason Mount til Manchester United, Mateo Kovačić til Manchester City sem og þó nokkrir hafa haldið á vit ævintýranna í Sádi-Arabíu.

Þá ákvað Loftus-Cheek að feta í fótspor "Fikayo Tomori og ganga í raðir AC Milan. Tomori fór til Mílanó-borgar árið 2021 og hefur notið sín til hins ítrasta. Hinn 27 ára gamli Loftus-Cheek sá ekki fram á mörg tækifæri með Chelsea á komandi leiktíð og ákvað því að nú væri tími kominn til að skipta alfarið um félag. Hann skrifar undir fjögurra ára samning í Mílanó.

Loftus-Cheek spilaði alls 155 leiki fyrir Chelsea ásamt því að leika með Crystal Palace og Fulham á láni. Þá á hann að baki 10 A-landsleiki fyrir England sem og 40 leiki fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×