Tilkynnt var um afsögn Birnu í tilkynningu til kauphallar í nótt og nýjan bankastjóra. Haldinn var starfsmannafundur með starfsfólki snemma í morgun þar sem Birna fékk að kveðja starfsfólk og nýr bankastjóri kynntur inn.
„Þetta hefur verið erfitt og auðvitað í gær, þegar Birna óskaði eftir því að láta af störfum, það var þungt,“ segir Finnur.
Birna sendi sjálf tilkynningu um afsögn sína snemma í morgun þar sem hún sagðist ætla að stíga til hliðar svo að ró geti myndast.
„Með því axla ég ábyrgð á mínum þætti málsins. Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum,“ sagði Birna í tilkynningu sinni og að hún yfirgæfi bankann með miklum trega en að hún væri sátt við sitt verk.
Nánasti samstarfsmaður Birnu
Jón Guðni Ómarsson tók við starfi Birnu en að sögn Finns hefur hann verið staðgengill Birnu og hennar nánasti samstarfsmaður síðustu ár og ráðningin þannig til að tryggja samfellu. Finnur segir ráðningu aðeins fyrstu viðbrögð bankans en að svo ráðist framhaldið á hluthafafundi.„Það er hluthafafundur fram undan og stjórnenda að vinna úr þeim úrbótum sem að okkur er falið,“ segir Finnur.
En hvað með hans eigin stöðu á fundinum?
„Ég mun taka því sem að höndum ber. Hluthafafundur þá er vald hluthafa og þeir munu tala. Nei, nei, ég óttast það ekki.“
Spurður um þögn bankans síðustu daga segir Finnur að bankinn hafi viljað umþóttunartíma miðað við þá umræðu sem fór af stað.
„Það var mikill stormur og við þurftum að hugsa okkar gang,“ segir Finnur og að hann telji storminum ekki lygnt.
„Við erum tilbúin í þessa umræðu en skýrslan kom út á mánudaginn. Það hefur verið fjallað um hana og við göngumst við þeim brotum,“ segir Finnur og að hann sé sannfærður um að það sé mikilvægt að sáttin hafi verið gerð. Hún rammi inn alvarleika brotanna.
„Fjármálaeftirlitinu hefði ekki verið heimilt að gera við okkur sátt ef brotin væru utan þess ramma þannig að við vorum ánægð með að sáttin kláraðist og að sé að baki,“ segir Finnur.
Finnur segir að innri endurskoðun bankans hafi skilað skýrslu um málið í maí í fyrra sem hafi verið send Fjármálaeftirlitinu og strax þá hafi verið farið í breytingar á verklagi innan bankans eins og hvað varðar til dæmis kaup starfsmanna og skilyrðislausar upptökur starfsmanna.
En er bankanum enn treystandi fyrir sölu fyrirtækja?
„Já, ég held það, en það er auðvitað bankans að byggja upp það traust sem hann hafði og þetta verkefni sneri að ákveðinni starfsemi. Fjármálaeftirlitið gerir fjölmargar úttektir á starfsemi bankans, viðamiklar úttektir, þær eru heilt yfir að koma vel út. Þetta verkefni fór illa og þessi skýrsla hún segir það,“ segir Finnur og að allt of víðtækar ályktanir séu dregnar um almenna starfsemi bankans út frá þessu verkefni.
Hann segir almenna starfsemi bankans í lagi og að fólk eigi ekki að óttast það að vera í viðskiptum við bankann. Þau merki ekki brottfall frá bankanum síðustu daga.
Málinu er þó langt frá því að vera lokið því eftir hádegi þar sem brot bankans verða rædd á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.