Innlent

„Á­kaf­lega löngum vetri í ís­lenskri heil­brigðis­sögu“ nú lokið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. Vísir/Einar

Kostnaður sjúklinga við heimsóknir til sérfræðilækna mun í mörgum tilvikum lækka verulega eftir að loksins tókst að koma á samningum milli þeirra og ríkisins í dag. Gert er ráð fyrir því að samningurinn spari sjúklinga milljarða á ári. 

Engir samningar hafa verið við sérgreinalækna frá því í janúar 2019 og hafa margir læknar því innheimt viðbótargreiðslur frá sjúklingum.

Hafa sjúklingar því þurft að greiða margfalt meira fyrir þjónustu læknanna. Nú verði vonandi tryggt að allir hafi jafnt aðgengi að þjónustu sérgreinalækna óháð fjárhag sjúklinga.

„Við erum að ljúka þarna ákaflega löngum vetri í íslenskri heilbrigðissögu. Þarna erum við að ljúka fjögurra og hálfs árs tímabili þar sem sérfræðilæknar á sjálfstæðum stofum hafa verið utan samninga. Þetta er geysilega mikilvægt fyrir sjúklingana. Þetta er aðallega að tryggja aðgengi þeirra að viðunandi þjónustu. Þetta er mikilvægur dagur að því leytinu til,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, um samninginn. 

Ragnar Freyr Ingvarsson er formaður Læknafélags Reykjavíkur.Vísir/Einar

Með samningnum er fjármagn til þjónustu sérgreinalækna aukið um rúma fjóra milljarða króna á ári. Reiknað er með að greiðsluþátttaka almennings lækki um allt að þrjá milljarða króna á ári.

Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga, segir að vel hafi gengið að ná samkomulagi á lokametrunum.

„Það er alltaf þannig að það er ekkert í höfn fyrr en allt er í höfn og það eru ýmsir hnútar að hnýta en þetta gekk allt vel,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×