Allt er orðið dýrara
Útlitið er gott fyrir spænskan túrisma. Könnun á meðal 400 fyrirtækja í ferðaþjónustu sýnir að búist er við 15% aukningu á pöntunum miðað við sumarið í fyrra. Hins vegar verður allt dýrara en áður. Talið er að flugfargjöld hafi hækkað að jafnaði um 10 til 15% auk þess sem mikil verðbólga hefur haft í för með sér hækkun á öllu sem heitið getur; gistingu, mat og öllu öðru.
Og Spánverjar ætla líka að ferðast meira en í fyrra, en þá héldu margir að sér höndunum vegna mikillar verðbólgu, sem nú er í rénun. Helstu áfangastaðir Spánverja innanlands eru Balear-eyjarnar, Majorka og Ibiza, þá koma Kanaríeyjar og strendur Miðjarðahafsins. Þá er Madrid nú í fyrsta sinn nefnd með uppáhaldsáfangastöðum innfæddra.
Spánverjar fara helst til Bandaríkjanna
Fari Spánverjar í utanlandsreisu er vinsælast að fara til Bandaríkjanna og nágrannalanda í suðri; Egyptalands og Jórdaníu. Þá njóta nýir áfangastaðir á borð við Albaníu og Búlgaríu aukinna vinsælda.
Spænskar ferðaskrifstofur óttast ekki að verðbólga og verðhækkanir fæli útlendinga frá því að koma til Spánar. Þeir koma flestir frá Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi og Bandaríkjamönnum fjölgar frá ári til árs. Útlendingar heimsækja helst austur- og suðurströndina, með öðrum orðum, þeir vilja liggja í sól og synda í sjónum.
Þá er vinsælt að heimsækja stórborgirnar Madrid og Barcelona og svokallaðar vínferðir eða „rutas del vino“ verða æ vinsælli.
Þingkosningar að sumri setja hugsanlega strik í reikninginn
Þingkosningar fara í fyrsta sinn fram að sumri hér á Spáni í sumar, eftir þrjár vikur, þann 23. júlí. Starf við kjörstaði er þegnskylduvinna hér á Spáni og því óttast margir að verða fyrirvaralítið kallaðir til að sinna þeirri vinnu á kjördag. Það virðist þó ekki draga úr pöntunum Spánverja á sumarleyfisferðum, en spurningum hefur rignt inn til stjórnvalda um hvernig komast megi hjá þessari þegnskyldu, skyldi kallið koma.