Rússneska leyniþjónustan handtók Gershkovich, fréttaritara Wall Street Journal þegar hann var að afla frétta í nágrenni Katrínarborgar í mars. Hann var sakaður um njósnir og hnepptur í gæsluvarðhald. Dómstóll úrskurðaði hann í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. ágúst í síðasta mánuði en hann áfrýjaði.
Fréttamönnum var vísað úr dómsalnum áður en úrskurðurinn var kveðinn upp. Þeir fylgdust með uppkvaðningunni á sjónvarpsskjám annars staðar í dómshúsinu.
Gershkovich og Wall Street Journal vísa ásökunum rússneskra stjórnvalda á bug. Bandaríkjastjórn segir blaðamanninn hafa verið handtekinn ólöglega. Rússar hafa ekki lagt fram rökstuðning eða sannanir fyrir ásökunum sínum til þessa.
AP-fréttastofan segir að Lefortovo-fangelsið í Moskvu sé alræmt fyrir slæman aðbúnað fanga. Lögmaður Gershkovich segir að bandarískum erindrekum hafi í þrígang verið meinað að hitta hann frá því í apríl. Allt að eitt og hálft ár gæti tekið að ljúka rannsókn á málinu.
Sérfræðingar telja ekki ósennilegt að stjórnvöld í Kreml hafi látið handtaka Gershkovich til þess að nota hann sem skiptimynt í fangaskiptum við Bandaríkjastjórn líkt og þeir gerðu með Brittney Griner, bandaríska körfuboltakonu, sem var handtekin fyrir minniháttar sakir í Rússlandi.