Skoðun

Markaður mann­aflsins

Erna Mist skrifar

Óháð stöðu manns í stéttaskipulagi samfélagsins eða staðsetningu á hinum hugmyndafræðilega áttavita er öllum í hag að félagslegur hreyfanleiki lifi komandi kynslóðaskipti af. Óháð viðhorfi okkar til ríkisafskipta eða skoðun okkar á skattkerfinu sammælumst við um að vilja hæfustu læknana til að standa vörð um heilsu landsmanna, hæfustu kennarana til að viðhalda vitsmunalegum þroska þjóðarinnar, og hæfustu iðnaðarmennina til að varðveita lífsgæðastaðalinn sem síðustu áratugir hafa leitt af sér.

Við viljum að grínþættirnir séu framleiddir af fyndnasta fólkinu og að bækurnar séu skrifaðar af skörpustu pennunum. Við viljum að söfnin geymi verk eftir frumlegustu listamennina og að næmasta fólkið sé fengið til að annast þau sem geta ekki séð um sig sjálf. 

Við viljum að þingið samanstandi af beittum ræðumönnum og lausnamiðuðum leiðtogum, ekki tækifærissinnum hvers eina raunverulega stefnumál er að halda starfinu. Við viljum að markaður mannaflsins sé frjáls og óhlekkjaður við tilefnislausar vinsældir; hagkerfi þar sem virði fólks er metið í verðleikum frekar en ættfræðilegum tilviljunum. 

Munurinn á elítu og klíku er sá að elítan inngildir hæfasta fólkið og útilokar afganginn, á meðan klíkan útilokar nýtt fólk almennt af ótta við að raska valddreifingunni innan hennar. Elítur myndast á grundvelli sérfræðiþekkingar - klíkur myndast á grundvelli valdafíknar. Í klíkukenndu samfélagi víkja draumar fyrir afturhaldi og valmöguleikar fyrir nauðhyggju; þar sem börn breytast í foreldra sína í stað þess að verða að sjálfstæðum einstaklingum. 

Enginn leitar flóttaleiða fyrr en aðstæður neyða mann til þess. Flóttaleiðir á borð við skjáfíkn, lyfjafíkn og matarfíkn eru ekki óhjákvæmilegir sjúkdómar, heldur afleiðingar ófrelsis, vandamáls sem klíkan leysir ekki af ótta við að leysast upp sjálf.

Höfundur er listmálari. 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×