Innlent

Handtekinn fyrir að hlaupa inn á Laugardalsvöll

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan handtók mann sem hljóp inn á Laugardalsvöll eftir landsleik í gærkvöldi. Myndin er úr safni.
Lögreglan handtók mann sem hljóp inn á Laugardalsvöll eftir landsleik í gærkvöldi. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Maður var handtekinn eftir að hann hljóp inn á Laugardalsvöll eftir að leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Slóvakíu lauk í gærkvöldi. Ísland tapaði leiknum sem er hluti af undankeppni fyrir Evrópumótið á næsta ári.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að maðurinn hafi verið fluttur á lögreglustöð en honum sleppt að „viðræðum loknum“.

Nokkur erill var hjá lögreglunni í gærkvöldi og nótt en töluverður fjöldi fólks var í miðborginni á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Fimm gistu fangageymslur lögreglunnar og fjórir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þá var nokkuð um tilkynningar um slys á fólki sem féll af rafhlaupahjólum.

Í miðborginni var tilkynnt um nokkrar líkamsárásir í nótt. Á svæði lögreglustöðvarinnar fyrir Kópavogi og Breiðholt virtist fólk örmagna. Þar var tilkynnt um mann sem svaf ölvunarsvefni í rúmi inni á stigagangi. Honum var vísað úr húsinu. Einnig var tilkynnt um mann sem svaf í vegarkanti. Hann var einnig vakinn.

Þá aðstoðaði lögreglan eftir að kerra losnaði aftan af bíl og rúllaði út af veginum. Kerran olli þó hvorki skaða né tjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×