Körfubolti

Hallveig leggur skóna á hilluna 27 ára gömul: „Langaði að hætta á toppnum“

Aron Guðmundsson skrifar
Hallveig Jónsdóttir hefur lagt skóna á hilluna
Hallveig Jónsdóttir hefur lagt skóna á hilluna Vísir/Skjáskot

Hall­veig Jóns­dóttir, sem hefur undan­farin tíma­bil verið fyrir­liði Íslandsmeistara Vals í körfu­bolta, hefur á­kveðið að leggja skóna á hilluna að­eins 27 ára gömul.

Hall­veig á yfir að skipa afar far­sælum ferli hjá Val en þar hefur hún orðið Ís­lands­meistari í þrí­gang, tví­vegis orðið deildar­meistari og einu sinni bikar­meistari.

Þá á hún að baki yfir 350 leiki í efstu deild hér á landi og segir á­kvörðunina, um að láta gott heita af körfu­bolta­iðkun, hafa blundað lengi hjá sér.

„Væntan­lega kemur þessi á­kvörðun mín mörgum á ó­vart en þau sem standa mér allra næst vita að þetta er ekkert ó­vænt og engin skyndi­á­kvörðun sem ég er að taka. Þetta hefur blundað í mér en fyrst og fremst er ég bara pínu spennt fyrir því að lifa lífinu án þess að vera alltaf að hugsa um æfingar og keppni, sem hefur þó verið æðis­legt allan þennan tíma.

Á þessum tíma­punkti er ég bara spennt fyrir því að prófa eitt­hvað nýtt, svo hef ég verið að glíma við smá­vægi­leg meiðsli og er í fullri vinnu sem gerir þetta svona að rútínu á borð við vinna, æfa og spila. Þetta hefur verið æðis­legur tími en nú er ég spennt fyrir ein­hverju nýju.“

Hún hafi ekki tekið þessa á­kvörðun í einni svipan bara vegna þess að það hentaði henni.

„Þetta hefur blundað lengi í mér og hefur legið svo­lítið á mér. Ég hugsaði um að hætta í fyrra en fannst það þá ekki alveg vera rétti tíma­punkturinn.

Þetta fé­lag er svo geggjað og liðið sem ég var hluti af var svo geggjað að það hélt mér alltaf bara á­fram í þessu. Það var rétt á­kvörðun að halda á­fram að spila þá, mig langaði að hætta á toppnum og með titilinn í höndunum og það gekk upp. Ég finn að þetta er rétta á­kvörðunin fyrir mig.“

Hallveig endaði ferilinn á Íslandsmeistaratitli með ValVísir/Hulda Margrét

Sigur­sæl hefur hún verið hjá Val en það eru ekki titlarnir sem standa upp úr þegar hún litur yfir feril sinn.

„Það sem stendur upp úr, ætli það sé ekki bara þessi gamla góða klisja, allt fólkið sem maður er búin að kynnast og vin­skapurinn sem hefur myndast á þessum tíma. Ég er mjög þakk­lát fyrir allt fólkið sem ég hef kynnst.

Auð­vitað er gaman að hafa þessa titla en það sem ég held mest upp á er allur vin­skapurinn sem ég hef eignast á þessum tíma.“

Segir ekki skilið við Val

Hún hefur þó ekki sagt al­farið skilið við Val.

„Ég ætla mér nú að vera eitt­hvað á­fram í kringum liðið á næsta tíma­bili, leggja eitt­hvað til málanna. Vals­heimilið er ekkert að fara sakna mín of lengi.

Hvaða þýðingu hefur Valur fyrir þig eftir allan þennan tíma?

„Eigin­lega bara hættu­lega mikla þýðingu. Valur er fé­lag sem mér finnst vera framar öðrum hvað varðar kynja­jafn­rétti sem og utan­um­hald um leik­menn. Þetta er frá­bært fé­lag sem hefur gert of­boðs­lega mikið fyrir mig. Mér þykir ó­trú­lega vænt um þetta fé­lag, mér finnst það gera alveg of­boðs­lega margt vel.“

En hvað gerist ef þú færð löngunina til þess að stíga aftur fæti inn á körfu­bolta­völlinn?

„Ég er nú ekki búin að skrá mig úr Val. Þannig ef mér leiðist alveg brjál­æðis­lega mikið í nóvember eða hve­nær sem það verður þá tek ég skóna af hillunni og drulla mér á völlinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×