Vísir greindi frá eigendaskiptum á Bankastræti Club í gær. Birgitta Líf Björnsdóttir, sem stofnaði staðinn í júli 2021 í sama húsi og B5, hefur selt sinn hlut í staðnum og við taka Sverrir Einar og Vesta Mikute.
Í tilkynningu segir að þau Sverrir og Vesta séu búsett í Lundúnum og ætli þannig að færa stemningu í næturlífi Lundúna til Reykjavíkur, nánar tiltekið á Bankastræti 5.
Sverrir segir unnið að endurbótum á staðnum, jafnt að innan sem utan. Hljóð og ljósakerfi verði á heimsmælikvarða og úrvalið á bar og flöskuborðum meira. Þá njóta þau aðstoðar Arnars Gauta Sverrissonar við hönnun staðarins og mun afraksturinn líta dagsins ljós á næstu dögum.

Að mestu farsæl saga
„Gestir staðarins geta vænst þess að njóta skemmtunar vinsælustu plötusnúðanna, gæðakokteila á góðu verði, lifandi andrúmslofts og umfram allt öryggis, segir í tilkynningu. „Heilsa og öryggi gesta okkar er algjört forgangsmál,“ er haft eftir Sverri.
Eins og sagði í frétt Vísis um málið í gær hefur Sverrir komið víða við í íslensku viðskiptalífi.
„Flest hefur gengið vel en vissulega hefur ekki allur rekstur gengið upp með þeim hætti sem lagt var upp með í byrjun. Við látum hins vegar snurðu á þræði á einum stað ekki stoppa okkur í að gera góða hluti annars staðar,“ er haft eftir Sverri.
Saga hans sé mestan part farsæl og hafa þau því mikla trú á að byggja megi upp skemmtistaðinn á ný.
„Staðsetningin er frábær í hjarta miðbæjarins. Við ætlum að tryggja að allir skemmti sér vel og fari glaðir heim.“