Þetta kemur fram í tölvupósti sem öllum verjendum í málinu barst nýverið og Vísir hefur undir höndum. Þar segir að aðalmeðferðin fari fram dagana 25. til 29. september næstkomandi.
„Aðalmeðferðin mun fara fram í sal að Þjóðhildarstíg 2, í Gullhömrum, en öll aðstaða þar uppfyllir þarfagreiningu dómsins,“ segir í póstinum.
Málið var þingfest þann 21. mars síðastliðinn, við heldur óvenjulegar aðstæður. Sakborningar í málinu eru 25 karlmenn á aldrinum átján til 36 ára og því þurfti að þingfesta málið í fjórum hollum.
Ljóst er að ekki er unnt að skipta aðalmeðferð með þeim hætti og því þurfti að leita annara lausna. Nú er sú lausn fundin í formi veislusals, sem undir venjulegum kringumstæðum hýsir viðburði á við árshátíðir menntaskóla og fyrirtækja og brúðkaup.
Í tölvupóstinum kemur jafnframt fram að fyrirtöku til framlagningar greinargerða og fleira verði frestað til haustsins, en það stafi meðal annars af því að beðið er matsgerðar.