Erlent

Cuba Go­od­ing Jr. samd­i rétt fyr­ir upp­haf nauðg­un­ar­rétt­ar­hald­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Cuba Gooding Jr. í dómsal árið 2020. Hann átti að mæta aftur í dómsal í dag vegna ásökunar um nauðgun.
Cuba Gooding Jr. í dómsal árið 2020. Hann átti að mæta aftur í dómsal í dag vegna ásökunar um nauðgun. AP/Alec Tabak

Bandaríski leikarinn Cuba Gooding Jr. hefur gert samkomulag við konu sem sakaði hann um að hafa nauðgað sér fyrir um áratug. Réttarhöld í málinu áttu að hefjast í dag en leikarinn hafði neitað sök.

AP fréttaveitan segir að nokkrum mínútum áður en kviðdómendaval átti að hefjast hafi komið í ljós að samkomulag hefði náðst. Ekki hefur verið gefið upp hvað samkomulagið felur í sér en konan hafði farið fram á sex milljónir í miskabætur.

Uppfært: Upprunalegu fréttina, sem fjallaði um að réttarhöldin myndu hefjast í dag, má finna hér að neðan.

Réttarhöldin í máli bandaríska leikarans Cuba Gooding Jr. hefjast í dag. Hann hefur verið sakaður um að nauðga konu á hóteli í New York fyrir um áratug en leikarinn neitar sök. Hann segist hafa haft mök við konuna með samþykki hennar, eftir að þau hittust á veitingastað í borginni.

Konan heldur því fram að hún hafi hitt leikarann í Manhattan og hann hafi fengið hana til að fara með sér á hótel, þar sem hann hafi ætlað að skipta um föt. Hún segir hins vegar að þegar þau hafi komið þangað hafi hann nauðgað henni.

Eins og áður segir neitar Cuba Gooding Jr. ásökununum og lögmenn hans segja að konan hafi stærst sig af því að hafa sængað hjá frægum leikara, eftir umrætt kvöld.

Nafn konunnar hefur ekki komið fram hingað til, en AP fréttaveitan segir að hún verði að opinbera það þegar réttarhöldin hefjast. Konan hefur farið fram á sex milljónir dala í skaðabætur.

Cuba Gooding Jr. hefur staðið frammi fyrir fjölmörgum ásökunum um kynferðisbrot, káf og annars konar óviðeigandi hegðun, samkvæmt frétt AP. Leikarinn játaði í fyrra að hafa þuklað á konu í New York árið 2019 og að hafa kysst konu gegn vilja hennar á skemmtistað í borginni árið 2018.

Sjá einnig: Cuba Gooding Jr. sleppur við fangelsi

Dómarinn í málarekstrinum sem hefst í dag hefur leyft lögmönnum konunnar að kalla konur sem Cuba Gooding Jr. hefur játað að hafa brotið á að bera vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×