Allt besta CrossFit fólkið frá Evrópu vann sér sæti á þessu gríðarlega sterka móti með frammistöðu sinni í fjórðungsúrslitunum.
Evrópska fólkið stóð sig það vel í síðasta hluta undankeppni heimsleikanna að Evrópa fékk aukasæti í bæði karla- og kvennaflokki.
Það verða því ellefu heimsleikasæti í boði í undanúrslitamótinu í Berlín um helgina en keppni hefst í liðakeppni í dag og svo í einstaklingskeppninni á morgun. Sextíu karlar og sextíu konur ætla sér að komast til Madison í gegnum Evrópu og þar á meðal er okkar besta fólk.
Fjórar íslenskar konur og Björgvin Karl Guðmundsson (annar í fjórðungsúrslitum Evrópu) keppa um um þessi sæti.
Konurnar eru Þuríður Erla Helgadóttir, Anníe Mist Þórisdóttir, Sara Sigmundsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir. Þau voru öll inn á topp sextán í fjórðungshlutanum þar af öll nema Sólveig inn á topp tíu.
Björgvin Karl, Þuríður Erla og Sólveig eiga möguleika á því að komast aftur í einstaklingsúrslit heimsleikanna alveg eins og í fyrra.
Þá er eitt lið líka að reyna að komast á heimsleikana en það er lið frá Crossfit Sport sem er að keppa í Berlín. Keppendur liðsns eru þau Ragnar Ingi Klemenzson, Andrea Ingibjörg Orradóttir, Steinunn Anna Svansdóttir, Viktor Ólafsson, Davíð Björnsson og Ingunn Lúðvíksdóttir.
Það er því óhætt að vera bjartsýn á það að Ísland eignist fleiri keppendur á heimsleikunum.
Þrír Íslendingar hafa þegar tryggt sér sæti á heimsleikunum, Katrín Tanja Davíðsdóttir í meistaraflokki kvenna, Bergrós Björnsdóttir í unglingaflokki og Breki Þórðarson í flokki fatlaðra.
Katrín Tanja vann sér sæti í gegnum undaúrslitamóti vesturhluta Norður-Ameríku en hún keppir undir fána Bandaríkjanna á þessum heimsleikum þótt við eignum okkur hana að sjálfsögðu áfram.