Innlent

„Ógeðslega óþægilegt“ ástand eftir piparúða á LÚX

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögregla mætti á staðinn en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.
Lögregla mætti á staðinn en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Uppi varð fótur og fit á öðrum tímanum aðfaranótt sunnudags þegar piparúða var spreyjað yfir hóp af fólki á skemmtistaðnum LÚX Nightclub í Austurstræti. Vitni lýsir ástandinu sem myndaðist sem ógeðslega óþægilegu.

Þórey Kjartansdóttir var að skemmta sér á LÚX Nightclub um hálftvöleytið fyrrnefnda nótt þegar piparúða var spreyjað inni á staðnum. Hún segir sig og vinkonurnar allt í einu hafa fengið hóstakast og því ákveðið að fara á salernið. Á leiðinni þangað hafi þær litið yfir þvöguna og brugðið í brún.

„Maður leit þarna yfir og það voru allir í hóstakasti,“ segir hún í samtali við Vísi.

Í stiganum á leið upp segir Þórey þær hafa mætt starfsmanni sem greindi frá því að piparúða hafi verið beitt.

Hún lýsir ástandinu sem „ógeðslega óþægilegu“. Hún segir mikinn rugling hafa ríkt meðal fólks yfir stanslausum hóstaköstum viðstaddra.

Þórey segir flesta hafa rýmt staðinn en honum ekki verið lokað. Þá hafi dyraverðir haldið áfram að hleypa fólki inn.

Í 30. grein vopnalaga nr. 16/1998 segir að öðrum en lögreglu sé óheimilt að framleiða, flytja til landsins eða eignast úðavopn. Þar heyri piparúði undir. 

Lögreglan í Reykjavík staðfestir við Vísi að hafa sent menn á vettvang vegna málsins en enginn hafi verið handtekinn. Málið sé í rannsókn.

Ekki hefur náðst í Víking Heiðar Arnórsson, eiganda staðarins, vegna málsins


Tengdar fréttir

Tæmdi Le­bowski með prumpu­sprengju

Óprúttinn aðili notaðist við einhverskonar prumpusprengju á Lebowski bar á laugardaginn og tæmdi staðinn á svipstundu. Eigandi barsins hvetur aðilann til að stunda iðjuna heima hjá sér frekar en á skemmtistöðum og börum. 

Börn á skemmti­stað með of fáa dyra­verði

Við eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt kom í ljós að skemmtistaður í miðbæ Reykjavíkur var með of fáa dyraverði við vinnu. Þá voru börn undir aldri inni á staðnum. Forráðamenn staðarins eiga von á kæru vegna málsins og var tilkynning send á barnavernd vegna barnanna á staðnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×