Þýska viðskiptablaðið Handelsblatt greinir frá þessu í umfjöllun sem kölluð er „Teslu-skjölin.“ En þau eru byggð á hundrað gígabætum af gögnum sem uppljóstrari lak til blaðsins.
Í gögnunum má finna hundrað þúsund nöfn núverandi og fyrrverandi starfsmanna, kennitölur, tölvupóstföng, símanúmer, og launaupplýsingar. Meðal annars upplýsingar um eigandann, Elon Musk.
Einnig bankaupplýsingar kaupanda Teslu bíla og leyniupplýsingar varðandi framleiðslu bílanna.
Háar sektir
Samkvæmt breska blaðinu The Guardian hefur gagnaverndarskrifstofan í Brandenburg, þar sem Tesla framleiðir bíla, lýst lekanum sem alvarlegum og stórum.

„Ég man ekki eftir svona stórum leka,“ sagði Dagmar Harge, fulltrúi stofnunarinnar. Gæti Tesla þurft að greiða um 3,5 milljarða bandaríkjadollara í sektir vegna þessa. Eða fjögur prósent af árlegri sölu.
Hraðaaukning og draugabremsun
Fyrir utan lekann um viðskiptavini og starfsmenn þá leiðir uppljóstrunin í ljós að þúsundir hafa kvartað til fyrirtækisins vegna aðstoðarkerfi ökumanna. Þar af hafa um fjögur þúsund manns kvartað yfir skyndilegri hraðaaukningu eða „drauga bremsun.“
Samkvæmt Handelsblatt hefur Tesla brugðist við lekanum. Að sögn bílaframleiðandans liggur grunur um að um sé að ræða óánægðan fyrrverandi starfsmann sem lak upplýsingunum. Hann hafi misnotað stöðu sína sem tæknimaður og Tesla muni lögsækja viðkomandi.
Deildu myndum
Þetta er ekki eini lekinn hjá Tesla að undanförnu. Fyrir aðeins mánuði síðan greindi fréttastofan Reuters frá því að hópur starfsmanna Tesla hefði deilt myndum og myndböndum úr bílamyndavélum Tesla eigenda frá árunum 2019 til 2022.