Aldrei áður hafa svo margir hátt settir þjóðarleiðtogar sótt landið heim á sama degi, eða rúmlega fjörutíu talsins. Öll hittust þau í miðborg Reykjavíkur í Hörpu og svöruðu þar flest spurningum fjölmiðlafólks áður en setningarathöfn fór fram í Eldborg.
Meðal þeirra sem ávarpaði setningarathöfnina var Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu auk fjölda annarra leiðtoga frá Evrópu svo sem eins og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.
Að lokinni setningarathöfn fóru fram hringborðsumræður og kvöldverður fyrir luktum dyrum. Að því loknu fóru einhverjir þjóðarleiðtoganna heim á leið, líkt og forsætisráðherra Bretlands. Á morgun heldur fundurinn síðar áfram og verður stærsta viðfangsefnið svokölluð tjónaskrá, sem haldin verður yfir brot Rússlands í Úkraínu.














