Innlent

Byrjað að dreifa nýju sorp­tunnunum í Reykja­vík

Atli Ísleifsson skrifar
Tunnudreifingu á Kjalarnesi er lokið og stendur nú yfir dreifing í Grafarholti og Úlfarsárdal.
Tunnudreifingu á Kjalarnesi er lokið og stendur nú yfir dreifing í Grafarholti og Úlfarsárdal. Reykjavíkurborg

Dreifing á nýjum sorptunnum er hafin í Reykjavík og er þar unnið samkvæmt nýju flokkunarkerfi sorphirðu í samvinnu við nágrannasveitarfélög. 

Dreifingu tunnanna er lokið á Kjalarnesi og stendur dreifing nú yfir í Grafarholti og Úlfarsárdal. 

Í tilkynningu frá borginni segir að skylt sé að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili samkvæmt lögum um hringrásarhagkerfi sem tóku gildi í janúar 2023.

Þá segir að um sé að ræða viðamikið umhverfismál en með réttri flokkun sé hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent.

Íbúar þurfa ekki að grípa til neinna aðgerða hvað varðar tunnuskipti. Tunnudreifing er hafin og lýkur breytingunum í september.

Reykjavíkurborg hefur tekur upp nýtt og samræmt flokkunarkerfi sorphirðu í samvinnu við nágrannasveitarfélög.Reykjavíkurborg

„Dreifingaráætlun á nýjum tunnum eftir hverfum:

  • Kjalarnes, Grafarvogur, Grafarholt og Úlfarsárdalur fá nýjar tunnur í maí.
  • Árbær og Breiðholt í júní.
  • Háaleiti og Bústaðir í júní og júlí.
  • Laugardalur í júlí.
  • Miðborg og Hlíðar í ágúst.
  • Vesturbær í september.

Tunnudreifingu á Kjalarnesi er lokið og nú stendur yfir dreifing í Grafarholti og Úlfarsárdal. Eftir það verður haldið í Grafarvoginn og svo koll af kolli samkvæmt plani.

Öll heimili fá jafnframt körfu og bréfpoka undir matarleifar sem dreift er samhliða tunnuskiptunum.

Markmið að fjölga tunnum eins lítið og hægt er

Eins og fyrr segir þurfa allir að flokka í fjóra flokka við heimili. Í nýju flokkunarkerfi er tunnum úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa. Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Tunnum fjölgar þar sem ekki voru endurvinnsluílát fyrir. Að lágmarki er hægt að hafa tvær tvískiptar tunnur í sérbýli með þremur eða færri íbúum,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×