Erlent

Vilja heimila lausa­­sölu getnaðar­varna­r­pillu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þótt ráðgjafanefndin hafi lagt blessun sína yfir lausasölu pillunnar er ekki sjálfgefið að af verði.
Þótt ráðgjafanefndin hafi lagt blessun sína yfir lausasölu pillunnar er ekki sjálfgefið að af verði.

Ráðgjafanefnd Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að kostir þess að heimila sölu getnaðarvarnarlyfs án lyfseðils vegi þyngra en áhættan af því að heimila smásölu lyfsins. Var nefndin samhljóða í áliti sínu.

Umrædd getnaðarvarnarpilla heitir Opill en New York Times hefur eftir einum nefndarmanni, Kathryn Curtis hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, að lausasala hennar gæti haft veruleg jákvæð áhrif á lýðheilsu Bandaríkjamanna.

Sala pillunnar án lyfseðils myndi stórauka aðgengi að getnaðarvörninni, ekki síst fyrir ungar konur og aðra sem eiga erfitt með að fá tíma hjá lækni, til að mynda vegna aðgengiserfiðleika eða kostnaðar.

Nokkrum spurningum er hins vegar ósvarað áður en af getur orðið. Sérfræðingar FDA hafa til að mynda lýst áhyggjum af því að konur sem eiga ekki að nota pilluna, til að mynda vegna brjóstakrabbameins eða óútskýrðra blæðinga frá leggöngum, fari sannarlega eftir þeim leiðbeiningum.

Þá segja þeir óvíst að neytendur, margir ungir að árum, muni fara eftir þeim leiðbeiningum að taka pilluna alltaf á sama tíma dags og að nota aðra getnaðarvörn ef þeir missa úr dag. 

Aðstoðarframkvæmdastjóri lausasölulyfja hjá FDA segir standa á framleiðanda Opill að sýna fram á hvað sé líklegt til að gerast þegar neytendur geta nálgast pilluna án lyfseðils en það sé ekki endilega það sama og gerist þegar pillan er fengin eftir uppáskrift hjá lækni.

Ráðgjafanefndin segir þessa áhættuþætti hins vegar blikna í samanburði við þann ávinning sem lausasala getnaðarvarnarpillunnar myndi hafa. Benda þeir meðal annars á að um helmingur þungana í Bandaríkjunum hafi ekki verið ætlaður.

Umfjöllun New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×