Innlent

Jóna Fann­ey tekur við for­mennsku af Frið­riki

Atli Ísleifsson skrifar
Jóna Fanney Friðriksdóttir hafði betur gegn Friðriki Rafnssyni, sitjandi formanni, í formannskjöri á aðalfundi í gær.
Jóna Fanney Friðriksdóttir hafði betur gegn Friðriki Rafnssyni, sitjandi formanni, í formannskjöri á aðalfundi í gær. Aðsend

Jóna Fanney Friðriksdóttir var í gær kosin nýr formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna en hún hafði betur gegn sitjandi formanni, Friðriki Rafnssyni, í formannskjöri á aðalfundi félagsins í gær. Friðrik hafði gegnt embættinu síðastliðin tvö ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar kemur fram að Jóna Fanney hafi öðlast leiðsöguréttindi frá Leiðsöguskóla Íslands árið 1987. 

„Hún hefur gegnt fjölda stjórnunarstarfa á starfsferli sínum; var m.a. bæjarstjóri á Blönduósi, framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna og framkvæmdastjóri AFS. Jóna Fanney býr einnig að viðamikilli reynslu af félags- og trúnaðarstörfum og hefur t.a.m. setið í stjórn Landverndar, Almannaheilla og skiptinemasamtaka AFS um árabil.

Leiðsögn, félag leiðsögumanna var stofnað árið 1972 og er með beina aðild að ASÍ. Jóna Fanney er þriðja konan sem gegnir embætti formanns á hálfri öld frá stofnun félagsins. Auk Ragnheiðar Björnsdóttur, sem gegndi embættinu 2006 – 2010, var frumkvöðullinn og stofnfélaginn Birna G. Bjarnleifsdóttir formaður Leiðsagnar á árunum 1973-1979.

Á aðalfundi leiðsögumanna nefndi Jóna Fanney þrjú veigamestu atriðin sem félagið ætti að beita sér fyrir undir hennar stjórn. Þau eru leiðrétting launa leiðsögumanna í komandi kjarasamningum, sameiningu og samstöðu leiðsögumanna sem starfa hérlendis og mótun skilvirkar framtíðarsýnar félagsins,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×