Fótbolti

Banda­ríkja­menn varaðir við fagnaðar­látunum í Napólí

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stuðningsfólk Napólí er þegar byrjað að fagna.
Stuðningsfólk Napólí er þegar byrjað að fagna. EPA-EFE/CESARE ABBATE

Bandaríska sendiráðið í Napólí á Ítalíu hefur varað Bandaríkjamenn í borginni og nærumhverfi við mögulegum fagnaðarlátum þegar Napólí tryggir sér ítalska meistaratitilinn í knattspyrnu.

Napoli trónir á toppi Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, með 17 stiga forskot á Lazio sem er í 2. sæti. Þegar aðeins sjö umferðir eru eftir þá er ljóst að það styttist í að félagið verði Ítalíumeistari. Hefur bandaríska sendiráðið því sent út tilkynningu þess efnis að þegar fyrsti meistaratitill liðsins frá 1990 er í höfn mun stuðningsfólk liðsins líklega missa sig í gleðinni.

„Búist er við gríðarlegum fagnaðarlátum út um alla borg í lok apríl eða snemma í maí þegar knattspyrnufélagið Napólí tryggir sér ítalska meistaratitilinn. Önnur fagnaðarlæti munu eiga sér stað snemma júní þegar tímabilinu lýkur,“ segir í tilkynningu frá sendiráðinu.

„Fagnaðarlætin gætu enst í nokkra daga, gríðarlegt magn af fólki mun koma sama, umferð verður þung og götum gæti verið lokað. Flugeldum verður skotið upp í miklu magni og þá verður áfengisneysla mikil,“ segir einnig í tilkynningunni og er fólk varað við því að það gæti verið lengur á leið í og úr vinnu, í skólann, á flugvöllinn eða lestarstöðina.

Miðað við fagnaðarlæti stuðningsfólk félagsins eftir sigur á Juventus í síðustu umferð má reikna með að borgin verði einfaldlega á hliðinni þegar meistaratitillinn verður loks í höfn.

Napoli mætir Salernitana á morgun, sunnudag, og gæti orðið meistari með sigri fari svo að Lazio vinni ekki Inter. 

  • Klukkan 10.30 Inter - Lazio [Stöð 2 Sport 2]
  • Klukkan 13.00 Napoli - Salernitana [Stöð 2 Sport 2]
  • Klukkan 13.00 Sassuolo - Empoli [Stöð 2 Sport 3]
  • Klukkan 16.00 Fiorentina - Sampdoria [Stöð 2 Sport 2]
  • Klukkan 18.45 Bologna - Juventus [Stöð 2 Sport 3]



Fleiri fréttir

Sjá meira


×