Erlent

„Hann nauðgaði mér, hvort sem ég öskraði eða ekki“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Carroll mætir í dómshúsið í gær.
Carroll mætir í dómshúsið í gær. Getty/Michael M. Santiago

E Jean Carroll tókst á við Joe Tacopina, lögmann Donald Trump, í réttarsal í New York í gær og neitaði því ítrekað að hafa skáldað að hafa verið nauðgað af forsetanum fyrrverandi í verslun í borginni.

„Ég er að segja þér það að hann nauðgaði mér, hvort sem ég öskraði eða ekki,“ sagði Carroll á einum tímapunkti þegar Tacopina gekk á hana.

Carroll var meðal annars spurð að því hvers vegna hún hefði ekki stigið fyrr fram en hún svaraði á þann veg að hún hefði fundið hvata til þess í kjölfar uppljóstrana um kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein og upphafs #MeToo hreyfingarinnar.

Hún sagði það aldrei hafa hvarflað að sér að greina frá nauðguninni þegar Trump bauð sig fram til forseta árið 2016. „Ég ætlaði aldrei að tala um það sem Trump gerði, Aldrei,“ svaraði hún aðspurð.

Carroll, sem var dálkahöfundur, sagðist hafa farið inn í búningsklefa verslunarinnar með Trump í gamni, þar sem hann hafði beðið hana um að máta undirfatnað en hún skorað á hann til baka að máta sjálfur. Þegar hann réðist á hana hefði hún ósjálfrátt brugðist við með því að hlæja og haldið að það myndi róa Trump.

Tacopina spurði Carroll ítrekað hvers vegna hún hefði ekki öskrað en hún sagðist hafa fundið fyrir of miklum sársauka til að öskra og það væri ekki hægt að álasa henni fyrir að öskra ekki. Þá benti hún á að þolendur væru oftsinnis spurðir að þessu, sem fældi þá frá því að leita til lögreglu.

Þegar Tacopina gekk á hana lét hún þau orð falla sem getið er hér að ofan... öskur eða ekki öskur; Trump hefði nauðgað henni.

Carroll hefur sjálf greint frá því að hafa fyrst brugðist við árásinni með því að fara að hlæja og einnig að hafa hlegið þegar hún sagði vinkonu sinni frá árásinni í síma. Hún sagðist hins vegar aðeins hafa gert það í geðshræringu, eins og til að sannfæra sjálfa sig um að þetta hefði ekki verið eins slæmt og hún upplifði.

Þá hefðu vinir hennar gefið henni misvísandi ráð um hvort hún ætti að leita til lögreglu eða ekki.

Réttarhöldin halda áfram á mánudag en ekki er gert ráð fyrir að Trump muni bera vitni í málinu.

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×