Innlent

Fimm greinst með „Arktúrus“ hér á landi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, ítrekar að engin ný einkenni fylgi hinu nýja afbrigði miðað við gögn heilbrigðisyfirvalda. 
Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, ítrekar að engin ný einkenni fylgi hinu nýja afbrigði miðað við gögn heilbrigðisyfirvalda.  Vísir/Egill

Fimm einstaklingar hafa nú greinst hér á landi með nýtt undirafbrigði Ómíkrón XBB veirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Afbrigðið, sem ber opinberlega heitið XBB.1.16 hefur verið tengt við fjölgun augnsýkinga í frásögnum á netinu en gögn heilbrigðisyfirvalda styðja þær frásagnir ekki.

Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, staðfestir í skriflegu svari til Vísis að afbrigðið hafi nú greinst hér á landi. Það hefur ekki hlotið formlegt nafn en hefur verið kallað latneska heitinu Arktúrus í erlendum fjölmiðlum.

Guðrún segir engar breytingar á veikindum eða einkennum fylgja afbrigðinu. Frásagnir af fjölgun augnsýkinga í Indlandi, meðal annars í börnum, fóru mikinn á samfélagsmiðlum í síðustu viku. 

Veikindi ekki alvarlegri

Sóttvarnarlæknir segir augnsýkingar hafa verið og séu enn ein af mögulegum einkennum vegna sýkinga sem valda Covid-19. Gögn heilbrigðisyfirvalda bendi ekki til fjölgunar slíkra einkenna vegna X.B.1.16.

Afbrigðið á uppruna sinn í Indlandi og hefur breiðst hratt út að undanförnu, meðal annars í Bandaríkjunum. Þar má nú rekja 7,2 prósent smita til afbrigðsins.

Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um X.B.1.16 segir að það hafi nú greinst í 33 löndum. Gögn bendi ekki til þess að veikindi af völdum þess séu alvarlegri en áður.


Tengdar fréttir

Nýtt afbrigði sem valdið hefur augnsýkingum ekki greinst hér á landi

Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með nýju undirafbrigði Ómíkrón XBB veirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum og heitir latneska heitinu Arcturus. Fjölgun augnsýkinga hefur verið tengd við afbrigðið í frásögnum á netinu. Sóttvarnarlæknir segir ekki að merkja fjölgun slíkra sýkinga í gögnum heilbrigðisyfirvalda. Afbrigðið hefur enn ekki greinst hér á landi en tilfellum fer fjölgandi á alþjóðavísu og því megi búast við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×