Fjögur ungmenni voru upphaflega hneppt í gæsluvarðhald eftir að 27 ára pólskur maður lést eftir að hafa ítrekað verið stunginn með eggvopni. Nítján ára sakborningur á Hólmsheiði hefur samkvæmt heimildum fréttastofu játað sök.
Hin ungmennin þrjú voru vistuð á Stuðlum en sautján ára stúlku úr þeim hópi var sleppt úr haldi í gær eftir úrskurð Landsréttar. Á sunnudag skaut verjandi hennar gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness til Landsréttar með kæru. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness átti henni að vera gert að sæta varðhaldi til klukkan fjögur næsta fimmtudag.
Í úrskurði Landsréttar, sem fréttastofa hefur undir höndum, lýsir stúlkan málavöxtum þannig að fljótlega eftir að hún og félagar hennar hafi komið út af veitingastað í Hafnarfirði hafi komið til átaka sem hún hafi ekki tekið þátt í og hún verið í fimm til átta metra fjarlægð. Hún segir átökin aðallega hafa verið á milli tveggja.
Í úrskurðinum segir að upptökur úr síma stúlkunnar, framburður annarra og önnur gögn málsins styðji við frásögn hennar og uppfyllir gæsluvarðhaldið því ekki skilyrði laga um að stúlkan sé undir rökstuddum grun í málinu.
Sjö prósent ungmennanna báru vopn til að verja sig
Margrét Valdimarsdóttir doktor í afbrotafræði segir í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar að ofbeldismenning og vopnaburður ungmenna sé mikið áhyggjuefni. Í vetur lagði Margrét nafnlausa spurningalista fyrir alla nemendur á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 13-18 ára. Þar kom fram að sjö prósent þeirra hefðu borið vopn því þeim fannst þau þurfa að verja sig.
„Þetta er ansi mikið þó að talan - sjö prósent - virki kannski ekki svakaleg en ef maður setur þetta í samhengi við fjöldann á landsvísu.“ Sjö prósent af 16.500 svarendum í könnuninni er 1155.
„Þannig að þetta er svakalegur fjöldi.“

Margrét segir að svo virtist sem að einhvers konar ofbeldismenning eða andi á meðal ungs fólks á Íslandi sé komin upp. „Það þarf að bregðast við þessu – núna – og það þarf að stöðva þetta.“
Vandi ungmenna sé margþættur; eftirlitslaus samfélagsmiðlanotkun, ófullnægjandi forvarnastarf og félagsleg einangrun COVID tímans. Við hefðum sofið á verðinum gagnvart þeirri óheillaþróun sem hefur verið að teiknast upp hjá ungu kynslóðinni.
„En þessi vopnaburður, allir þessir hnífar, það er auðvitað áhyggjuefni sem þarf að taka á og það þarf að taka á því af hörku og þegar ég segi hörku þá er ég ekki að meina með hörðum refsingum heldur þarf að taka þessu alvarlega.“
Hér að neðan er hægt að hlusta á hádegisfréttatíma Bylgjunnar í heild.