Björgvin réði sig sem innkaupastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra verslanakeðjunnar Bónuss í mars. Hann hætti sem forstjóri Ríkiskaupa um síðustu mánaðamót. Hann hafði gegnt starfinu frá 1. september 2020.
Í hans stað setti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Söru Lind sem forstjóra tímabundið til 31. ágúst.
Sara Lind starfaði sem sérfræðingur í kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sat í samninganefnd ríkisins í kjarasamningsviðræðum en var færð til Ríkiskaupa sumarið 2021. Þar tók hún við stöðu sviðsstjóra stjórnunar og umbóta á sama tíma og þrír aðrir nýir sviðsstjórar tóku til starfa. Henni var falið að stýra stefnumótun og áætlanagerð stofnunarinnar ásamt forstjóra. Hún var jafnframt gerð að staðgengli forstjóra.
Á starfsmannalista á vefsíðu Ríkiskaupa kemur nú fram að Sara Lind sé settur forstjóri Ríkiskaupa út ágúst.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir fjármálaráðuneytið að Sara Lind sé settur forstjóri frá 1. apríl til 31. ágúst. Gert sé ráð fyrir að staðan verði auglýst „innan tíðar“.