Innlent

Sara Lind sett for­­stjóri Ríkis­­kaupa

Kjartan Kjartansson skrifar
Sara Lind Guðbergsdóttir er settur forstjóri Ríkiskaupa út ágúst.
Sara Lind Guðbergsdóttir er settur forstjóri Ríkiskaupa út ágúst. Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðherra setti Söru Lind Guðbergsdóttur sem forstjóra Ríkiskaupa tímabundið eftir að Björgvin Víkingsson lét af störfum um mánaðamótin. Staðan verður að líkindum auglýst á næstunni.

Björgvin réði sig sem innkaupastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra verslanakeðjunnar Bónuss í mars. Hann hætti sem forstjóri Ríkiskaupa um síðustu mánaðamót. Hann hafði gegnt starfinu frá 1. september 2020.

Í hans stað setti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Söru Lind sem forstjóra tímabundið til 31. ágúst.

Sara Lind starfaði sem sérfræðingur í kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sat í samninganefnd ríkisins í kjarasamningsviðræðum en var færð til Ríkiskaupa sumarið 2021. Þar tók hún við stöðu sviðsstjóra stjórnunar og umbóta á sama tíma og þrír aðrir nýir sviðsstjórar tóku til starfa. Henni var falið að stýra stefnumótun og áætlanagerð stofnunarinnar ásamt forstjóra. Hún var jafnframt gerð að staðgengli forstjóra.

Á starfsmannalista á vefsíðu Ríkiskaupa kemur nú fram að Sara Lind sé settur forstjóri Ríkiskaupa út ágúst.

Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir fjármálaráðuneytið að Sara Lind sé settur forstjóri frá 1. apríl til 31. ágúst. Gert sé ráð fyrir að staðan verði auglýst „innan tíðar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×